140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:07]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi tel ég að samþykkt og móttaka IPA-styrkja bendi til þess. Þeir eru beinir aðlögunarstyrkir til þess að aðlaga stofnanakerfið og íslenska stjórnsýslu að því sem Evrópusambandið krefst og það kemur alveg feimnislaust fram í skýrslu utanríkisráðherra þar sem hann segir að þessum styrkjum sé ætlað á árunum 2012 og 2013 að undirbúa þær stofnanir sem eigi að vera tilbúnar þegar aðildarviðræðum lýkur. Það er því alveg klárt að með því að samþykkja þessa IPA-styrki er að mínu mati komið fram yfir það sem þingsályktunartillagan um umsókn heimilaði.

Ég get nefnt fleiri atriði sem eru að mínu mati komin þar fram úr. Ég tel að nú séu þau tímamót í aðildarferlinu og aðildarumsókninni (Forseti hringir.) að fram undan sé bara aðlögun. (Forseti hringir.) Það er búið að fara í gegnum alla rýnivinnu, samanburðarvinnu og annað því um líkt, fram undan er aðlögun að (Forseti hringir.) kröfum Evrópusambandsins.