140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:39]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að þessi gagnagrunnur er forsenda fyrir því að taka upp þetta breytta kerfi sem Evrópusambandið krefst.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um hvað þetta tæki langan tíma. Sá samningur sem við erum að fjalla um, um stuðningsfyrirkomulagið, er bara stöðluð reglugerð af hálfu Evrópusambandsins sem hefur gilt líka fyrir önnur ríki sem hafa sótt um aðild þannig að í grundvallaratriðum er um sama grunntexta að ræða. Það er ekki ástæðan fyrir því að það hafi dregist að koma með þetta fram.

Ég leyfi mér að spyrja hv. þingmann: Hefði það haft áhrif á atkvæðagreiðsluna 16. júlí 2009 ef þá hefði líka legið fyrir að Íslendingar ætluðu að taka við allnokkrum (Forseti hringir.) milljörðum króna í mútufé eða (Forseti hringir.) aðlögunarstyrki eins og hér er? Hefði það getað haft áhrif á atkvæðagreiðsluna (Forseti hringir.) og ákvörðun einstakra þingmanna ef það hefði komið strax fram?