140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Þar sem ég skrifaði undir álit meiri hluta nefndarinnar með fyrirvara vil ég gera stuttlega grein fyrir í hverju sá fyrirvari er fólginn og viðhorfum mínum almennt til Vaðlaheiðarganga.

Ég vil byrja á því að lýsa yfir stuðningi við gerð Vaðlaheiðarganga. Framkvæmdin mun verða atvinnulífi og mannlífi á Norðausturlandi mikil lyftistöng og ýta undir hagvöxt á svæðinu til lengri tíma. Gerð Vaðlaheiðarganga er gott fjárfestingarverkefni en samfara efnahagskreppu undanfarinna ára hefur fjárfesting dregist saman eins og kunnugt er. Framkvæmdin er því mikilvægt framlag til að snúa þeirri þróun við og auka fjárfestingu. Gert er ráð fyrir því að göngin verði að mestu greidd upp með veggjöldum og því ósambærileg við mörg önnur jarðgöng eða framkvæmdir sem nú eru til umræðu.

Forsaga málsins er sú að í samgönguáætlun 2007–2010 var ákveðið að taka Vaðlaheiðargöng út fyrir áætlunina og í sérstakri ályktun er kveðið á um að þau skuli fjármögnuð að hálfu af ríkissjóði og að hálfu með veggjöldum. Eins og mörg önnur góð áform urðu þau að engu í hruninu 2008. Í kjölfar hrunsins var ljóst að geta ríkissjóðs til fjárfestinga í vegagerð yrði mjög takmörkuð um langt árabil. Því var ákveðið að ráðast í samgönguframkvæmdir sem yrðu fjármagnaðar af einkaaðilum og greiddar niður með veggjöldum. Eðli málsins samkvæmt voru framkvæmdir á suðvesturhorninu hagkvæmasti og áhættuminnsti kosturinn í þessu efni en Vaðlaheiðargöng voru einnig í þessum áætlunum enda var ljóst að þar yrði hægt að innheimta veggjöld.

Áform voru uppi um mikilvægar samgönguúrbætur á Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut. Ég sem þingmaður Reykvíkinga tel það mikinn skaða fyrir suðvesturhornið að stjórnmálamenn og almenningur hafi ekki náð sátt um þessar mikilvægu framkvæmdir. Veggjöld eru umdeild og ég segi fyrir sjálfa mig að þau eru mér ekkert sérstaklega hugleikin, sérstaklega ef litið er til þess að þau ná aðeins til nokkurra vegahluta landsins, en Ísland er að vinna sig út úr kreppu og þarf á hagvexti að halda og þá eru framkvæmdir sem efla innviði mjög eftirsóknarverðar og veggjöld eru sett á því að skuldugur ríkissjóður getur ekki borið kostnaðinn af framkvæmdunum. Víða í Evrópu er litið til svipaðra framkvæmda við innviðauppbyggingu til að sporna við kreppunni.

Framkvæmdirnar á suðvesturhorninu hefðu verið hagkvæmustu verkefnin og hægt hefði verið að stórefla samgöngur gegn hóflegu veggjaldi. Þessar áætlanir urðu ekki að veruleika af tveimur ástæðum, annars vegar tókust ekki samningar við lífeyrissjóðina um fjármögnun og hins vegar reyndist ekki vera stuðningur við þessar framkvæmdir meðal íbúa og sveitarstjórna í nágrenni Reykjavíkur. Annað reyndist upp á teningnum norðan heiða því að sveitarfélög og fyrirtæki á Norðausturlandi voru tilbúin að koma að stofnun hlutafélags um gerð Vaðlaheiðarganga.

Það frumvarp sem hér er til umræðu veitir heimild til að lána Vaðlaheiðargöngum hf. 8,7 milljarða kr. á verðlagi í ágúst 2011. Gert er ráð fyrir því í greinargerð frumvarpsins og áætlunum að félagið verði endurfjármagnað árið 2018 á almennum markaði og ríkið fái lán sitt endurgreitt og þar með ljúki ábyrgð og áhættu ríkisins á fjármögnun framkvæmdarinnar sem standi eftir það undir sér með veggjöldum.

Virðulegi forseti. Minn fyrirvari við þetta frumvarp varðar endurfjármögnun á Vaðlaheiðargöngum hf. og þar með áætlanir um endurgreiðslu á því láni sem þetta frumvarp heimilar fjármálaráðherra að veita félaginu. Rekstraráætlun félagsins gerir ráð fyrir 3,7% vöxtum við endurfjármögnun verksins. Eins og Ríkisábyrgðasjóður og IFS Greining benda á er mjög ólíklegt að þessi kjör fáist á markaði.

Fyrir þessu eru tvær ástæður:

Í fyrsta lagi er eigið fé Vaðlaheiðarganga hf. of lítið miðað við umfang framkvæmdarinnar. Ég hefði því talið nauðsynlegt að auka hlutafé fyrirtækisins upp í 20% hið minnsta til að auka möguleika þess á endurfjármögnun á markaði. Eini aðilinn sem hefur í raun burði til að leggja félaginu til aukið fé er ríkissjóður. Fyrir þessu sjónarmiði hefur ekki verið mikill hljómgrunnur hjá hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutanum þrátt fyrir niðurstöðu IFS Greiningar á mikilvægi þessa.

Í öðru lagi gerir rekstraráætlunin ráð fyrir annars vegar jafngreiðsluláni sem fjármagni 35% hluta lánsins og hins vegar svokölluðu „cash-sweep“-láni sem fjármagni 65%. Hugmyndin er sú að endurgreiðslur lánanna fari eftir tekjum fyrirtækisins en það eykur áhættuna fyrir lánveitandann. Ríkisábyrgðasjóður telur að vextir lánsins verði líklega á bilinu 6,8–7,3% en ekki 3,7% eins og rekstraráætlun félagsins gerir ráð fyrir. Þar með er ljóst að rekstraráætlun fyrirtækisins stenst ekki ef fjármagna á félagið að óbreyttu á markaði og líkurnar á greiðslufalli aukast.

Niðurstaða Ríkisábyrgðasjóðs er afgerandi. Í fyrsta lagi er afar ólíklegt að unnt verði að endurfjármagna framkvæmdalán vegna Vaðlaheiðarganga án ríkisábyrgðar að óbreyttri eiginfjárskipan með þeim lánskjörum að verkefnið standi undir sér og ríkissjóður fái lán sitt þannig endurgreitt. Í öðru lagi bendir Ríkisábyrgðasjóður á að standi vilji Alþingis til þess að ríkið fjármagni gerð Vaðlaheiðarganga þá telur hann raunhæfara að ríkissjóður lágmarki áhættu sína með því að fjármagna verkefnið til enda. Mikilvægt er að ríkið geri strax ráð fyrir lánveitingunni til lengri tíma í lánsfjáráætlunum sínum, sérstaklega í ljósi þess að vaxtakjör ríkisins eru nú í sögulegu lágmarki. Ég tek undir þessi sjónarmið Ríkisábyrgðasjóðs.

Í 1. gr. frumvarpsins er fjármálaráðherra veitt heimild til að veita lán til Vaðlaheiðarganga hf. og er lánsheimildin opin, þ.e. ekki er kveðið á um lengd lánstímans. Frumvarpið stendur því ekki og fellur með óraunhæfum áætlunum um endurfjármögnun framkvæmdanna á almennum markaði eftir 2018. Ég tel að alþingismenn verði að vera sér mjög vel meðvitaðir um þetta. Sú lánveiting sem hér er gerð tillaga um er í mínum huga ekki tímabundin til 2018 eða þar um bil heldur erum við að taka ákvörðun um að ríkið veiti Vaðlaheiðargöngum hf. lán til framtíðar. Ríkissjóður er eini aðilinn sem getur fjármagnað framkvæmdina á þeim kjörum sem rekstraráætlun gerir ráð fyrir. Hugmyndir um annað eru að mínu mati óskhyggja eða óhófleg bjartsýni en betra er að byggja ákvarðanir um fjármál og framkvæmdir á raunsæjum áætlunum og varúðarsjónarmiðum.

Eftir stendur að framkvæmdin Vaðlaheiðargöng er góð og ég styð það að ríkissjóður veiti lán til að sú framkvæmd geti orðið að veruleika.