140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að ítreka það sem ég fór yfir í ræðu minni að í samgönguáætlun 2007–2010 var tekin sú prinsippákvörðun í þinginu að taka nákvæmlega þessa framkvæmd út fyrir samgönguáætlun. (Gripið fram í: 2007.) Ég bið hv. þingmann að kannast við samþykktir Alþingis. (Gripið fram í.) Eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fór yfir í ræðu sinni var þessi ákvörðun tekin 29. maí 2008.

Það er alveg rétt að hér er verið að breyta lögum um ríkisábyrgð og það er mikill ábyrgðarhlutur. Þess vegna hef ég tekið þá afstöðu sem þingmaður á Alþingi að við förum að ráðleggingum Ríkisábyrgðasjóðs í mjög ítarlegri umsögn sjóðsins um þetta frumvarp. Það er nákvæmlega það sem ég er að lýsa yfir í mínu máli.