140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:27]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum þetta skrýtna mál, Vaðlaheiðargöng, sem hefur verið tekið út úr samgönguáætlun þrátt fyrir alla sína galla og sett fram fyrir.

Mig langar að byrja á því að tæpa aðeins á því nefndaráliti sem liggur fyrir frá meiri hluta fjárlaganefndar en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að endurfjármagna lánið árið 2018 á almennum lánamarkaði.“

Þetta er hluti af rökstuðningnum fyrir því að samþykkja þessa gerð. En það hefur komið skýrt fram að það verður ekki hægt þannig að hér er um rangfærslu að ræða. Það segir einnig í álitinu, með leyfi forseta:

„Það er samdóma álit þeirra aðila sem hafa komið fyrir nefndina að framkvæmdin sé ein sú arðbærasta í samanburði við aðrar samgönguframkvæmdir sem ætlunin er að ráðast í á næstu árum og áratugum.“

Þetta er einfaldlega rangt. Svo segir líka, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að verulegur þjóðhagslegur ávinningur fylgir framkvæmdinni. Jafnframt leggur meiri hlutinn áherslu á að samningar við VHG hf. geri ráð fyrir því að göngin verði eign ríkissjóðs að uppgreiðslutíma liðnum.“

Það getur vel verið að göngin verði eign ríkissjóðs en skýrt hefur verið sýnt fram á að það er enginn þjóðhagslegur ávinningur af framkvæmdinni þannig að þetta er líka rangt. Það sem er líka rangt, frú forseti, er þar sem segir:

„Þá mun ríkissjóður spara umtalsverða fjármuni vegna minni snjómoksturs á leiðinni um Víkurskarð.“

Það hefur hvergi nokkurs staðar komið fram í gögnum að það eigi að minnka snjómokstur í Víkurskarði, hvergi nokkurs staðar, þannig að þetta er líka rangt. Svo segir einnig, með leyfi forseta:

„Ríkisábyrgðasjóður telur mjög ólíklegt að félagið geti endurfjármagnað lán ríkissjóðs árið 2018 á 3,7% verðtryggðum vöxtum eins og viðskiptaáætlunin miðar við.“

Þetta er þó alla vega rétt. En hér segir líka og þar er verið að tala um svokallaða einkaframkvæmd:

„Miðað er við að endurfjármögnunin verði að 35% hluta með jafngreiðsluláni til 28 ára, en að 65% hennar verði með endurgreiðsluákvæði í samræmi við rekstrarafkomu félagsins. […] Ef ekki tekst að fjármagna félagið á markaði á þessum eða betri kjörum er ljóst að bregðast þarf við því með því t.d. að ríkissjóður framlengi framkvæmdalánið þar til endurfjármögnun heppnast eða með öðrum hætti sem þurfa þykir til að kostnaður við framkvæmdina verði allur greiddur af tekjum af umferð um göngin. “

Þetta mun aldrei ganga eftir. Það kemur skýrt fram að miklar efasemdir eru um að þetta sé einkaframkvæmd, þetta er miklu frekar ríkisframkvæmd.

Það segir einnig í álitinu, með leyfi forseta:

„Göngin verða hluti af almenna vegakerfinu og því verða skilgreind atriði og lágmarksskilyrði sem gilda um slíka vegi.“

Þetta þýðir einfaldlega að kostnaður af rekstri ganganna lendir á ríkinu en ekki á svokölluðu einkahlutafélagi Vaðlaheiðarganga hf.

Svo segir um umferðarspá, en einn skrýtnasti fundur sem ég hef farið á var þegar verið var að ræða umferðarspána, með leyfi forseta:

„Þróun umferðar á næstu áratugum skiptir miklu máli um framgang verksins sem og hlutfall þeirra vegfarenda sem ákveða að fara um göngin frekar en Víkurskarð. Vegagerðin hefur endurskoðað fyrri umferðarspá sem var frá því í nóvember 2011. Niðurstaðan er sú að líklegasta útkoman miðar við 1,8% árlegan vöxt í stað 2% áður. Að öllu öðru óbreyttu hefur það í för með sér að framlengja þarf innheimtu veggjalda í tvö til þrjú ár umfram það sem núverandi áætlanir miðast við til þess að forsendur framkvæmdanna standist.“

Það er ekki minnst einu einasta orði á hér að núverandi umferð um svæðið er 10% minni en hún var þegar spáin var gerð og sú áætlun er ekki endurskoðuð.

Með leyfi forseta:

„Viðskiptaáætlun miðar við að um 90% vegfarenda ákveði að fara um göngin en það hlutfall er eðli máls samkvæmt mjög háð ákvörðun um fjárhæð veggjaldsins.“

Það kemur skýrt fram í gögnum Vegagerðarinnar að Vaðlaheiðargöng hf. gera ráð fyrir 90% umferð um göngin. Vetrarumferðin á þessu svæði er hins vegar ekki nema 20% af sumarumferðinni. Það má vissulega gera ráð fyrir að 90–95% af vetrarumferðinni fari um göngin en að gera ráð fyrir að vetrarumferðin standi undir þessu ásamt kannski helmingi af sumarumferðinni er allt annað mál. Það hefur aldrei verið reiknað út af hálfu Vegagerðarinnar eða fyrirtækisins hvað það þýðir.

Svo er hér enn ein villandi yfirlýsing, með leyfi forseta:

„Raunumferð um jarðgöng hefur annars verið 30–64% umfram spár og því meiri sem jarðgöngin eru nær þéttbýli eins og á við um væntanleg Vaðlaheiðargöng.“

Þarna er verið að vísa meðal annars til Bolungarvíkurganga, Héðinsfjarðarganga og Hvalfjarðarganga. Spár um þau göng eru teknar og heimfærðar upp á Vaðlaheiðargöng. En Vaðlaheiðargöng eru allt öðruvísi framkvæmd en hinar þrjár sem þau eru borin saman við, það er öðruvísi framkvæmd. Vegstyttingin er mjög lítil. Bolungarvíkurgöng voru grafin vegna þess að það var mjög mikil hætta fólgin í því að keyra um Óshlíð. Hvalfjarðargöngin styttu leiðina fyrir Hvalfjörð um tugi kílómetra þannig að það er heldur ekki hægt að bera það saman og með tilkomu Héðinsfjarðarganga, eins umdeild og þau þó voru, varð til algerlega nýtt svæði sem aldrei áður hafði verið hægt að keyra um og ferðast um áður þannig að aukningin þar er alls ekki sambærileg miðað við það sem mun verða við Vaðlaheiðargöng. Hér vantar allan raunhæfan samanburð og raunhæfar spár.

Í umsögn FÍB um frumvarpið kemur fram að Víkurskarð sem hættulegur staður að keyra á er í 98. sæti hvað varðar öryggi vega. Það eru 97 staðir sem brýnna er að fara í lagfæringar eða viðgerðir á hvað umferðaröryggi varðar. Víkurskarð er í 85. sæti af 150 köflum á hringveginum sjálfum þannig að öryggisins vegna er þetta ekki forgangsframkvæmd.

Pálmi Kristinsson, verkfræðingur og sérfræðingur í jarðgöngum, hefur unnið við jarðgangagerð og áætlanir í yfir 30 ár gerði 27 athugasemdir í umsögn sinni við þetta frumvarp. Hann bendir meðal annars á það sem ég sagði áðan, að áætlun Vaðlaheiðarganga um umferð er í dag 10% hærri en er í raunveruleikanum. Upprunalega var gert ráð fyrir 1.500–1.700 kr. veggjöldum þegar lífeyrissjóðirnir sögðu sig frá verkefninu. Nú eru veggjöldin komin yfir 1.000 kr. og fjármögnunin því enn óvissari. Sýnt hefur verið fram á það að umferðarþróun og hagvöxtur fylgjast almennt ekki að og alls ekki til skemmri tíma. Það sem ekki hefur verið tekið tillit til í umferðarspám Vegagerðarinnar á þessu tímabili er að menn eru að sjá núna í fyrsta skipti að hækkanir á eldsneytisverði leiða til langtímaminnkunar á umferð. Yfirleitt hefur umferð dottið niður um skamma hríð en núna eru að koma í ljós langtímaáhrif á umferð vegna mikillar hækkunar eldneytisverðs. Ekki er tekið tillit til þessa í umferðarspánni.

Það er heldur ekki tekið tillit til þess að undanfarin ár, hálfan til heilan áratug, hefur bílaeign landsmanna aukist alveg gríðarlega og Ísland er orðið mettað í bílaeign. Við eigum hlutfallslega fleiri bíla en nokkur önnur þjóð í heimi. Að sjálfsögðu eykst umferð í landinu á meðan þetta gengur yfir en núna erum við komin á þann stað að það komast ekki fleiri bílar fyrir framan húsin í landinu. Að sjálfsögðu mun þetta leiða til þess að umferðaraukningin mun alls ekki verða sambærileg og undanfarin ár og það er ekki tekið tillit til þessa í umferðarspánni. Pálmi Kristinsson spáir í raun 10% samdrætti í umferð á byggingartíma en Vaðlaheiðargöng hf. spá 3–4% aukningu.

Það má segja margt meira um þetta, og ég þreytist ekki á að nefna að vetrarumferðin, en að sjálfsögðu munu göngin verða mest notuð á veturna, er aðeins 20% af sumarumferðinni.

Ég vil líka nefna í sambandi við vaxtastigið að Ríkisábyrgðasjóður varaði mjög við því og það kemur m.a. skýrt fram að aðeins 1% hækkun á vöxtum leiðir til þess að miklar líkur verði á greiðslufalli Vaðlaheiðarganga hf. Í síðustu viku hækkaði Seðlabankinn vexti um 0,5% og við erum að því er virðist á leið inn í verðbólguumhverfi hækkandi vaxta. Það hefur náttúrlega miklu meiri og alvarlegri afleiðingar á fleiri þætti en Vaðlaheiðargöng hf. ef það gengur eftir, en það mun m.a. leiða til þess að fyrirtækið verður aldrei gjaldfært.

Menn hafa talað mikið um samfélagslega og þjóðhagslega hagkvæmni þessa verkefnis. Það er rétt að rifja upp að Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri útbjó þjóðhagslíkan fyrir þetta verkefni árið 2006 og þar kom fram að það væri þjóðhagslega hagkvæmt miðað við þær forsendur sem notaðar voru. Ríkisábyrgðasjóður og sérfræðingarnir þar tóku forsendur Vaðlaheiðarganga hf. og settu inn í líkanið og þá kom í ljós að það er engin þjóðhagsleg hagkvæmni af þessu verkefni. Hún er neikvæð ef eitthvað er. Þetta tala menn ekki um í nefndarálitinu enda hentar það kannski ekki sérstaklega vel.

Í samantekt Pálma Kristinssonar um þetta verkefni, gerir hann athugasemdir við 27 atriði, eins og ég nefndi áðan og nokkur þeirra eru þessi:

Þjóðhagsleg arðsemi er of lítil. Göngin eru of dýr í framkvæmd. Mikil óvissa er enn um áætlaðan heildarkostnað. Áætlaður umsjónar- og stjórnunarkostnaður er of lágur. Áætlaður rekstrar- og viðhaldskostnaður er of lágur. Áætlaður kostnaður við innheimtu veggjalda er of lágur. Núverandi umferð er of lítil. Mikill samdráttur er í almennri umferð á þjóðvegakerfi landsins. Spá um umferðaraukningu á næstu árum er of há. Greiðsluvilji vegfarenda er ofmetinn. Fjárhæð veggjalda er of há. Tekjur af veggjöldum munu ekki ná að standa undir öllum kostnaði. Allar áætlanir um kostnað og fjárhæð veggjalda hafa verið vanáætlaðar fram að þessu. Allar áætlanir um umferð hafa verið ofáætlaðar fram að þessu. Fyrirhuguð uppbygging í orkufrekum iðnaði á Norðausturlandi á næstu árum mun ekki breyta þeim meginniðurstöðum sem hér liggja fyrir. Verkefninu fylgir gríðarleg lánaáhætta og miklar líkur eru á því að ríkissjóður þurfi að taka á sig þungar fjárhagslegar byrðar. Hverfandi líkur eru á því að hægt verði að fjármagna framkvæmdalán Vaðlaheiðarganga hf. með 3,7% verðtryggðum vöxtum án ríkisábyrgðar árið 2017. Lítil atvinnusköpun miðað við stærð fjárfestingarinnar og áhættu. Óásættanlegt greiðslufyrirkomulag langtímalána. Hjáleið um Víkurskarð mun draga úr umferðinni um göngin.

Svona mætti áfram telja ef menn hefðu áhuga á því. Hér talar einn mesti sérfræðingur þjóðarinnar í fjármögnun jarðgangagerðar á landinu og þetta er álit hans á Vaðlaheiðargöngum.

Frú forseti. Það er ekki nóg að Ríkisábyrgðasjóður dæmi þetta verkefni óásættanlegt fyrir ríkissjóð og það muni aldrei ganga upp heldur blöskraði forstöðumanni lánamála ríkisins Björgvini Sighvatssyni svo sú ætlan fjárlaganefndar að hann sá sig tilneyddan til að stíga fram opinberlega í blaðagrein á visir.is í gær. Það er ekki algengt að forstöðumenn hjá ríkinu stígi fram með þessum hætti. Björgvin segir meðal annars í grein sinni, með leyfi forseta:

„Í skýrslu nefndar um endurskoðun ríkisábyrgða (bls 8.) sem gefin var út af fjármálaráðuneytinu árið 1997, kemur fram að ríkisábyrgðir beri að nota af mikilli gætni. Einnig segir þar að almenna reglan eigi að vera sú að lán séu tekin á almennum markaði án ábyrgðar ríkisins. Ríkisábyrgðir geti hins vegar verið réttlætanlegar í vissum tilfellum en þá sé mikilvægt að í gildi séu lög og reglugerðir sem kveða á um hvernig með þær skuli farið. Í kjölfar umræddrar skýrslu voru reglur um ríkisábyrgðir hertar. Í núverandi lögum um ríkisábyrgðir kemur fram að ábyrgðarþegi skuli leggja fram að minnsta kosti 20% af heildarfjárþörf verkefnisins og að ábyrgð ríkissjóðs skuli ekki nema hærra hlutfalli en 75% af lánsfjárhæð verkefnisins sem lánað er fyrir. Í núverandi frumvarpi til laga um fjármögnun á jarðgöngum undir Vaðlaheiði er lagt til að undanskilja framangreind ákvæði.“

Það á að taka úr sambandi lög um ríkisábyrgðir til að þjóna hagsmunum Vaðlaheiðarganga hf. Þetta var líka gert með deCODE á sínum tíma ef hv. þingmenn muna eftir því.

Og áfram segir Björgin:

„Þannig mun ábyrgðarþegi, þ.e. Vaðlaheiðargöng hf. (VHG hf.) einungis leggja fram 7% af heildarfjárþörf verkefnisins og ábyrgð ríkissjóðs nema 100% af lánsfjárþörf verkefnisins. Með því að undanskilja framangreind ákvæði er óhjákvæmilega verið að auka fjárhagslega áhættu ríkissjóðs miðað við gildandi lög um ríkisábyrgðir.

Ýmsar skýrslur hafa verið gerðar á undanförnum árum sem fjalla um fjárhagslega þætti Vaðlaheiðarganga. Greinarhöfundur hefur ekki séð neina skýrslu þar sem því er haldið fram að jarðgöngin muni standa undir sér með veggjöldum einum saman. Einu gögnin um það byggja á minnisblöðum og fjárhagsmódeli frá þeim aðila sem kemur til með að fá lánið veitt frá ríkissjóði, þ.e. VHG hf. Í skýrslu IFS Greiningar sem lagði mat á getu verkefnisins til að greiða til baka lánið er sérstaklega varað við að fjárhagsleg geta VHG hf. til að standa af sér neikvæða atburði sé mjög takmörkuð vegna lágrar eiginfjárstöðu sem skapi umtalsverða áhættu fyrir lánveitanda.“

Það segir einnig í grein Björgvins, með leyfi forseta:

„Því er haldið fram að göng um Vaðlaheiði séu þjóðhagslega arðsöm og er þar aðallega vísað í skýrslu um mat á þjóðhagslegri arðsemi Vaðlaheiðarganga sem unnin var af Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA) og birt var í janúar árið 2006. Niðurstaða þeirrar skýrslu var að samfélagslegur ábati framkvæmdarinnar væri 1,16 milljarðar kr. og 1,5 milljarðar kr. ef göngin væru gerð í samdráttarástandi. Skýrslan byggði að miklu leyti á forsendum sem fengnar voru frá Greiðri leið ehf., sem samkvæmt samþykktum félagsins var stofnað í þeim tilgangi að undirbúa gerð jarðganga um Vaðlaheiði. Ýmsar forsendur sem skýrslan byggði á hafa þróast til verri vegar. Stofnkostnaður við göngin hefur hækkað um 32% á föstu verðlagi og árleg umferðarspá Greiðrar leiðar ehf. er mun lægri nú en árið 2006. Ef skýrslan er uppreiknuð miðað við forsendur um stofnkostnað og umferðarspá sem VHG hf. kynnti umhverfis og samgöngunefnd Alþingis í nóvember 2011 yrði þjóðhagslegt tap framkvæmdarinnar um 1,2 milljarðar kr. (miðað við 4,7% ávöxtunarkröfu) og 0,4 milljarðar kr. ef göngin yrðu gerð í samdráttarástandi.“

Frú forseti. Greinarhöfundur segir líka:

„Ein af ástæðum sem talin er að réttlæti framkvæmdina er að hún stuðli að samþættingu atvinnulífs og byggða á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum og því að svæðið verði eitt atvinnu- og búsvæði. Samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar er vegalengdin á milli Akureyrar og Húsavíkur 91 km. Með tilkomu ganganna er gert ráð fyrir 15,7 km vegstyttingu þannig að vegalengdin á milli þessara staða styttist niður í 75,3 km sem er svipuð og vegalengdin á milli Reykjavíkur og Holta- og Landsveitar sem er fyrir austan Þjórsá og milli Reykjavíkur og Borgarness sem er 74 km. Ef tilkoma Vaðlaheiðarganga leiðir til þess að Eyjafjarðarsvæðið og Þingeyjarsýsla teljist eitt atvinnu- og búsvæði, má með sömu rökum líta svo á að svæðið frá Borgarnesi og Holta- og Landsveit, austan Þjórsár sé nú hluti atvinnulífs og byggða við höfuðborgarsvæðið. Samkvæmt rannsóknum á vegum Evrópusambandsins er gert ráð fyrir að akstur á milli heimilis og vinnu sé ekki meiri en 45 mínútur til þess að staðir geta talist tilheyra saman atvinnu- og búsvæði. Áætlað er að tilkoma ganganna stytti ferðatímann um níu mínútur en núverandi ferðatími á milli Akureyrar og Húsavíkur er um 1 klst. að jafnaði ef ekið er á 91 km hraða. Rannsóknir Evrópusambandsins styðja því ekki þá skoðun að tilkoma ganganna geri svæðið að einu atvinnu- og búsvæði.“

Frú forseti. Björgvin Sighvatsson segir að allt verkefnið feli í sér mikla óvissu. Mikil óvissa er til dæmis fólgin í því hvort umferðarmagn verði nægilega mikið til að standa straum af framkvæmdinni. Óvissan felst meðal annars í skiptingu umferðarinnar milli ganganna og núverandi vegar í gegnum Víkurskarð þar sem engin veggjöld eru innheimt. Svo segir Björgvin Sighvatsson í lokin, með leyfi forseta:

„Ég hef átt þess kost að kynna mér vel skýrslur og gögn sem liggja fyrir um gerð Vaðlaheiðarganga og tel að verkefnið muni hvorki ganga upp fjárhagslega fyrir ríkissjóð né vera þjóðhagslega arðbært.“

Þess má geta í lokin að greinarhöfundur er einnig menntaður hagfræðingur.

Frú forseti. Að forstöðumaður ríkisstofnunar sem heyrir undir fjármálaráðuneytið sem leggur fram þetta frumvarp skuli stíga fram opinberlega og tala með þessum hætti eru náttúrlega skýr skilaboð um að fjármálaráðuneytinu, fjármálaráðherra, sem hefur ekki verið hér í dag, og formanni fjárlaganefndar, sem er heldur ekki í salnum, beri að leggja við eyru og hlusta á þessa gagnrýni. Að það skuli ekki vera gert finnst mér einfaldlega skammarlegt.

Frú forseti. Þótt ég sé sammála því að Vaðlaheiðargöng séu samgöngubót, er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu um þau en þeirri að þau séu ekkert annað en dýr kosningavíxill fyrir þingmenn og ráðherra kjördæmisins, m.a. hv. formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og mun sem slíkur lenda á skattgreiðendum þegar upp er staðið.

Kallað hefur verið eftir breyttum vinnubrögðum, frú forseti, á Alþingi og í fjárlaganefnd. Það tók tvö ár að breyta svokölluðum safnritum þannig að þingmenn væru ekki að úthluta sjálfum sér peningum í vasann til að fara með heim og sáldra um kjördæmi sín á kosningaári. Vaðlaheiðargöng eru einfaldlega risastór safnliður sem menn munu svo fara með heim í kjördæmin og segja: Sjáið hvað ég geri fyrir ykkur. Kjósið þið mig.

Þetta gengur ekki, frú forseti. Ríkisábyrgðasjóður, sérfræðingur fjármálaráðuneytisins og Alþingis í fjárlögum, hefur bent á að þessi framkvæmd gangi ekki upp. Skoðanir Ríkisábyrgðasjóðs á Farice, Íbúðalánasjóði og Lánasjóði landbúnaðarins staðfesta að taka beri mark á skoðunum hans. Ég hef lýst því yfir á fundi fjárlaganefndar að kannski hafi ekkert breyst á Alþingi og í fjárlaganefnd og það sé bara tekin við ný kynslóð af mönnum eins og Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni með þeim vinnubrögðum sem viðgengust hér.

Ég mun leggja til að þetta mál fari aftur til nefndar og að nefndinni verði gert kleift að hreinsa sig af þessari óværu (Forseti hringir.) sem þetta frumvarp er og þetta nefndarálit er, og það verði farið af stað í þessa framkvæmd með öðrum hætti en hér er lagt til að gera.