140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:52]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hér er verið að vitna til Vegagerðarinnar og sérfræðiþekkingar hennar vil ég minna á að Vegagerðin lagði fram sína fyrstu jarðgangaáætlun árið 2001. Í þeirri áætlun var það mat Vegagerðarinnar að Dýrafjarðargöng skyldu verða fyrsta framkvæmd. Síðan hafa mörg jarðgöng verið gerð og enn er beðið með Dýrafjarðargöng. Þeim átti að vera lokið á þessu ári hefðu áætlanir gengið eftir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um sniðgöngu laga. Nú er beinlínis verið að setja lög í því skyni að sniðganga ákvæði laga um Ríkisábyrgðasjóð. Gildandi lög um ríkisábyrgðir gera ráð fyrir ákveðnu eiginfjárhlutfalli þeirra framkvæmda sem ríkið lánar til, en víkja á frá því verði þetta frumvarp að lögum þannig að eiginfjárhlutfallið verður ekki lengur 20% heldur 5%. Ég vil spyrja hv. þingmann þessarar grundvallarspurningar: Finnst honum réttlætanlegt (Forseti hringir.) að sett séu sérlög um einstakar framkvæmdir til að sniðganga almenn sjónarmið gildandi laga?