140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og það sem kom fram hjá hv. þingmanni, að litið væri á þetta sem ríkisframkvæmd en ekki einkaframkvæmd. Ég virði hv. þingmann fyrir það. Okkur í hv. fjárlaganefnd var nefnilega falið að fara yfir hvort við gætum tekið vafann af því að þetta væri einkaframkvæmd en ekki ríkisframkvæmd. Ég sé að hv. þingmaður er sammála mér um þetta og ég fagna því.

Ég vil hins vegar koma aðeins inn á nokkuð sem hefur komið fram í fyrri andsvörum. Ég tel verulega hættu á því, gangi þetta verkefni ekki upp, að það hafi áhrif á önnur verkefni í samgöngum. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi engar áhyggjur af því. Sú staða getur nefnilega myndast þegar framkvæmdum er lokið, verði kostnaðurinn of mikill og gangi ekki eftir, sérstaklega vaxtakostnaðurinn, að verkefnið lendi í þeim spíral — þó að menn segi: Þá lengjum við bara í lánunum — að aldrei verði hægt að greiða niður höfuðstólinn og vextirnir safnist ofan á hann og það verði einhvern veginn endalaust. Ég spyr því hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann hvort ekki sé skynsamlegra að fara að ábendingum Ríkisábyrgðasjóðs eins og við leggjum til í nefndaráliti okkar — ég og hv. þm. Illugi Gunnarsson og reyndar hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður fjárlaganefndar, sem gerði grein fyrir því af hverju hún væri með fyrirvara við nefndarálit meiri hlutans — að tryggja fjármögnun á þessu verkefni í stað þess að veita svokallað framkvæmdalán til sex ára og fara þá í endurfjármögnun því að núna eru vextir lágir og við erum með gjaldeyrishöft og getum því tekið þá áhættu sem fylgir endurfjármögnun en eftir sex ár tel ég það vera stórhættulegt í þessu máli.