140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kom rétt aðeins inn á það af hverju menn eru að setja sérlög um þetta og af hverju þetta á að heita einkaframkvæmd. Það er til þess að plata samgönguáætlun. Það er bara til þess að fara fram hjá henni. Það er ekkert annað. Þessi göng gætu náttúrlega jafneðlilega og öll önnur göng og aðrir vegir á Íslandi farið í samgönguáætlun, að sjálfsögðu, þar á þetta heima. Svo færu þau í samgöngunefnd Alþingis og þar yrði málið rætt, þar mundu þingmenn vega það og meta og fara í gegnum alls konar sjónarmið, hvað liggi á, hvar sé hættulegt, Norðfjarðargöng, Dýrafjarðargöng og ég veit ekki hvað. Síðan mundu menn taka ákvörðun um hvað sé skynsamlegt að gera strax, af því að peningarnir eru takmarkaðir. Það ferli væri miklu eðlilegra. Menn kalla þetta einkaframkvæmd, með opinbera aðila í fyrirtækinu, til að fara fram hjá, til að geta sett sérlög um þetta og til þess að geta sagt við kjósendur sína á Akureyri og víðar: Ég hef komið þessu í gegn fyrir ykkur, kjósið mig. Það er einfaldlega þannig. Þetta er enn þá þannig þrátt fyrir hrun. Hrunið dugði ekki til. Skýrsla rannsóknarnefndar og allt sem þar er talað um dugði bara ekki til. Menn ætla að halda þessum leik áfram.

Ég legg til, frú forseti, að þessari umræðu verði slitið og tekið fyrir næsta mál á dagskrá sem er líka mjög spennandi. [Kliður í þingsal.] Já, og fá milljarða inn í landið í staðinn fyrir að eyða 8 milljörðum.

En varðandi það að gera tvenn göng í einu. Ég fellst á þau sjónarmið að það sé ekki gott bæði upp á samfellu og reynslu. Það er betra að gera tvenn göng hvert á eftir öðru en tvenn göng á einu ári og engin göng næsta ár. Ég fellst á þau sjónarmið.