140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:56]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, okkur skortir einhvers konar mælitæki hvað þetta varðar. En þó er ég þeirrar skoðunar, og ég veit að við hv. þingmaður erum kannski ekki alveg sammála þar, í ljósi þess hversu mjög hastar að framkvæmdastigið sé aukið til að ýta undir störf í landinu, til að ýta undir hagvöxt sem byggður er á fjárfestingum, að við eigum að taka þetta mál núna og horfa til þess að það er möguleiki á að ráðast í þessa framkvæmd með allt öðrum hætti en hér er lagt upp með. Ég er sannfærður um að í þinginu er hægt að finna pólitíska sátt um að gera það og vinna þetta mál hratt og örugglega af því að allar upplýsingar um málið liggja fyrir, um kostnað, áætlanir, um umferð o.s.frv. Allt þetta liggur inni og hefur verið til umræðu um langa hríð.

En ég er alveg sammála hv. þingmanni. Það er mjög nauðsynlegt að við förum í gegnum alla umræðuna um veggjöld, hvaða vigt þau eiga að hafa o.s.frv., (Forseti hringir.) vegna þess að ef þessi möguleiki kemur aftur upp verðum við í þinginu að vera tilbúin og vita hvernig við ætlum að halda utan um slíkt.