140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi atburðarás sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir ræðir hér er skólabókardæmi um það þegar framkvæmdarvaldið traðkar á þinginu. Í þessu tilfelli hafa hv. þingmenn sem stýra viðkomandi nefnd val, þeir geta látið þetta yfir sig ganga eða þeir geta gripið til einhverra aðgerða Því miður hefur hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra gert þetta í það minnsta nokkrum sinnum. Bankasýslan á til dæmis samkvæmt lögum að fara með eignarhlut í öllum fjármálafyrirtækjum. Það hefur gengið eftir nema þegar núverandi hæstv. fjármálaráðherra ákveður að gera það sjálfur og gerði það t.d. í málefnum Byrs og SpKef. Ekki eru öll kurl komin til grafar í því máli en það er ljóst að það endar ekki vel og einnig er ljóst að það að taka þetta úr þeirri stofnun sem hefur mesta fagþekkinguna og á að gera það samkvæmt lögum var ekki farsælt fyrir neinn og allra síst ríkissjóð.

Ég verð bara að segja að þetta kemur mér mikið á óvart. Við skulum bara tala um hlutina eins og þeir eru. Þetta er erfitt mál og ég held að flestir þingmenn og í sjálfu sér landsmenn vilji fólkinu á þessu svæði sem mest er að berjast fyrir þessu allt hið besta og vilji að það fái eins góðar samgöngur og mögulegt er og að þetta verkefni gangi upp. En af hverju vinna menn þetta þá ekki almennilega? Af hverju kemur hv. fjárlaganefnd, sem hefur allar forsendur til að meta fjárhagslegar forsendur þessa verks, er búin að fá gesti og annað slíkt, ekki með aðrar tillögur? Í stað þess kemur hún með málið óbreytt fram. Það er ótrúlegt.