140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði hvort við yrðum ekki að fara að forgangsraða í þágu umferðaröryggis. Jú, þótt fyrr hefði verið. Samgönguáætlun ætti að gera það en hún gerir það ekki, því miður. Hér er ekki verið að taka út hættulegustu vegkaflana. Það er engin áætlun um að útrýma til dæmis þrjátíu hættulegustu vegköflunum og varðandi hættulegustu vegkaflana í þéttbýli var reyndar búið að semja um að ekkert ætti að gera þar næstu 10 árin. Við erum eins langt frá þessu og hægt er.

Hvað þetta mál varðar þarf auðvitað að skoða alla hluti í samhengi en ég hélt að eftir að hv. þingnefnd væri búin að skoða þetta kæmi hún og segði: Heyrðu, það eru augljósir áhættuþættir hér. Ef við ætlum að fara í þetta verkefni þurfum við að gera það með öðrum hætti, til dæmis eins og Pálmi Kristinsson skrifaði um. Hann nefndi fordæmi frá Noregi þar sem menn setja ríkisframlag en síðan setja þeir vegtolla á móti. Mér finnst eðlilegt að fara yfir þess konar þætti en ekki að koma með þessum hætti inn í málið. Svo er það ljótur leikur að koma fram með þetta á elleftu stundu og setja alla hv. þingmenn í erfiða stöðu gagnvart því fólki sem berst fyrir þessum framkvæmdum og býr á þessu svæði, það á ekki (Forseti hringir.) skilið svona vinnubrögð.