140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ræðu. Hann kom inn á í máli sínu að ekki væri skynsamlegt að vera með nema eina gangaframkvæmd í gangi í einu vegna þess að annars þyrftum við erlent vinnuafl og Vegagerðin hefði fjallað um þetta með þeim hætti.

Nú eru þrenn göng í umræðunni, þ.e. ásamt Vaðlaheiðargöngum eru það Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng. Nú blasir við og það hefur komið fram hjá langflestum sem hér hafa talað, að þessi framkvæmd muni ekki standa undir sér og geti þar af leiðandi ekki flokkast sem einkaframkvæmd heldur sé hún opinber framkvæmd.

Vaðlaheiðargöng eru, að teknu tilliti til samfélagslegra áhrifa, umferðaröryggis og fleira, neðar í röðinni, skulum við segja, en Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng. Í ljósi þessa og þeirrar staðreyndar að þessi framkvæmd stendur ekki undir sér og þeirrar staðreyndar að Vaðlaheiðargöngin eru aftar í röðinni en verið er að færa þau framar á þeim forsendum að þau standi undir sér, telur ráðherrann að þetta hafi áhrif til seinkunar á Dýrafjarðargöngum og Norðfjarðargöngum? Ef þetta verkefni nær fram að ganga hér og fer sem horfir að greiða þurfi úr ríkissjóði einhverja milljarða til að standa undir þessari framkvæmd, mun það valda seinkun á Dýrafjarðargöngum og Norðfjarðargöngum? Það væri forvitnilegt að fá skoðun ráðherrans á þessu af því að hann er ráðherra samgöngumála.