140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Ekki verður nú sagt að frumvarpið sé mikið að sniðum, það er fáar greinar, tvær eða þrjár greinar. Í 1. gr. kemur fram, með leyfi forseta:

„Í þeim tilgangi að tengja Eyjafjörð og Fnjóskadal með jarðgöngum um Vaðlaheiði er ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að undirrita lánasamning við Vaðlaheiðargöng hf. um lán til gangaframkvæmda fyrir allt að 8.700 millj. kr., miðað við verðlag í lok árs 2011.“

Nú skal það sagt í upphafi að það verkefni að gera jarðgöng milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals undir Vaðlaheiði er mjög gott og þarft. Víkurskarðið er mjög leiðinlegur, erfiður vegur, sérstaklega að vetri til. Það getur verið býsna fallegt að fara þarna að sumri til eins og víða um land, en á veturna getur þetta verið mjög snúinn kafli á leiðinni sem tengir svæðið innan þessa kjördæmis. Það er ekki deilt um að verkefnið er verðugt, þannig er nú reyndar með gríðarlega mörg verkefni um allt land. Þau eru mjög verðug þegar rætt er um framkvæmdir eða horft á nauðsyn þess að fara í samgöngubætur.

Eins og margir þekkja hefur það til dæmis verið mikil sorgarsaga hvernig haldið hefur verið á framkvæmdum á sunnanverðum Vestfjörðum. Íbúar þess svæðis hafa búið í allt of mörg ár við hörmulegar samgöngur þar sem stóran hluta úr ári er veruleg hætta á að vegir lokist, verðmæti tapist vegna þess að sú framleiðsla og atvinnustarfsemi sem þarna á sér stað á mikið undir að samgöngur séu í lagi. Sem betur fer er verið að vinna að nokkrum bótum á þessari stundu á þeim vegarkafla sem eftir er að laga, en það er hins vegar eftir að taka ákvarðanir um það sem mestu skiptir. Deilur hafa staðið um ákveðnar leiðir og í dag snýst deilan kannski um það hvort það takist að leggja láglendisveg þar sem í boði eru hálsar og fjallvegir. Við þingmenn kjördæmisins höfum að sjálfsögðu barist hart fyrir því að fundin verði láglendisleið sem hægt er að fara. Ég verð að segja, herra forseti, þannig að það liggi fyrir strax, að það er algjörlega óþolandi hvernig haldið hefur verið á málum varðandi hina svokölluðu B-leið í gegnum Teigsskóg, sem er, ég ætla bara að leyfa mér að segja það, herra forseti, ekki merkilegri skógur en flestir aðrir á Íslandi þar sem farið hefur verið í gegn með vegi eða raflínur eða eitthvað annað. Það er eitthvað annað sem er að trufla þetta, held ég.

Við þekkjum líka að víða um land eru langir kaflar þar sem eru vegir, sem við köllum kannski einu nafni sveitavegir, sem tengja saman sveitir við þjóðvegakerfið, við þjóðveg 1 og tengja saman svæði og byggðir innan héraðs. Þessir vegir hafa setið á hakanum árum saman. Íbúar margra þessara héraða og svæða hafa lengi barist fyrir því að sú leið verði farin, sem mér skilst sé farin víða erlendis, að leggja hreinlega slitlag á vegina eins og þeir eru í stað þess að fara í dýrar framkvæmdir, uppbyggingu vega og þess háttar, og nýta þar með fjármagnið enn þá betur. Vegagerðin hefur fram að þessu lagst gegn þessu og hefur án efa rök fyrir því, en ég hefði viljað að þarna yrði gerð tilraun til að nýta fé betur en gert hefur verið. Má þar nefna í þessu samhengi kafla eins og til dæmis í uppsveitum Borgarfjarðar, í Miðfirði og Hrútafirði og í Skagafirði, Hegranesi og innsveitum Skagafjarðar. Það er af nógu að taka, herra forseti, þegar þetta er rætt.

Ein er sú jarðgangaframkvæmd sem beðið hefur verið eftir mjög lengi, það eru Dýrafjarðargöng. Það er afar mikilvægt að þau göng verði að veruleika sem allra fyrst vegna þess að þau eru forsenda fyrir því að tenging verði á svæði sem búið er að skilgreina sem eitt atvinnu- og þjónustusvæði, þ.e. að tengja saman sunnanverða og norðanverða Vestfirði.

Við höfum fengið áskoranir frá Vestfirðingum um að flýta gerð Dýrafjarðarganga. Nýlega var hæstv. innanríkisráðherra afhentur undirskriftalisti með 3.200 nöfnum Vestfirðinga þar sem þess er krafist að Dýrafjarðargöng verði næsta jarðgangaframkvæmd. Það er vegna þess að íbúarnir eru löngu búnir að átta sig á þeim takmörkunum sem eru á samskiptum og samgöngum innan þessa svæðis. Mig minnir að það séu í kringum 700 km sem þarf að aka frá Patreksfirði til Ísafjarðar að vetri til þegar heiðarnar eru ófærar. Mönnum hefur jafnvel dottið í hug að sinna löggæslu á Patreksfirði frá Ísafirði að vetri til, og hvað ef mönnum skyldi detta það einhvern tímann í hug að sinna læknisþjónustu með sama hætti. Það eru mörg rök, herra forseti, fyrir því að fara í þessa framkvæmd. Vestfirðingar hafa bent á að Dýrafjarðargöng hafi verið metin brýnasta samgönguframkvæmdin frá því jarðgangaáætlun kom fram árið 2000.

Nú er mjög auðvelt að rífast um hvað er brýnt og hvað ekki. Ég skil líka vel áhyggjur Austfirðinga varðandi Norðfjarðargöng. Þau eru ekki síður brýn og gríðarlega mikilvæg. En það þarf að forgangsraða eins og hæstv. innanríkisráðherra benti á í ræðu sinni og ég tek undir það með honum.

Í frumvarpinu sem hér um ræðir er að finna, eins og með frumvörpum yfirleitt, fylgiskjal frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins með umsögn um frumvarp fjármálaráðherra. Eins og venja er er málið rakið ágætlega, farið yfir forsendur og vafaatriði. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr áliti fjármálaráðuneytisins þar sem vísað er í skýrslu IFS Ráðgjafar, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Einnig var bent á að fjármagnsskipan og vaxtakjör sem rekstraráætlanir félagsins byggðust á fælu í sér ákveðna óvissu og áhættu. Gert væri ráð fyrir að vaxtakjör við endurfjármögnun næmu 3,7% föstum raunvöxtum. Í skýrslunni kom fram að ekki væri hægt að fullyrða um fjármögnunarkjör á þeim tíma en líta yrði til þess að miðað við þau kjör sem byðust á markaði í dag þyki þessi kjör lág, nema til komi styrkari fjármagnsskipan, auknar tryggingar eða ávinningshlutdeild.“

Það er mjög mikilvægt þegar rætt er um svo stórar tölur að allrar varúðar sé gætt. Ég held að það sé mikilvægt að öllum sé ljóst að þessar tölur sem gefnar eru upp í forsendum kunna að vera lágar, kunna því að breytast.

Það kemur einnig fram í þessu áliti að það styrki traust á forsendum um stofnkostnað þessara ganga að fyrir liggur tilboð í stærsta hluta verklegra framkvæmda. Það tilboð er 5% undir kostnaðaráætlun sem gefur að sjálfsögðu ákveðna mynd af því hver kostnaður gæti orðið og rennir vissulega styrkari stoðum undir þær áætlanir sem taka í það minnsta mið af þeim kostnaði.

Það kemur einnig fram í áliti ráðuneytisins, sem ég held að styrki þau rök að þetta geti staðið undir sér, að á meðan umferð dróst saman víða á landinu svo sem á Reykjanesbraut og Suðurlandsvegi gerðist það ekki á þeim vegkafla sem hér um ræðir.

Það er hins vegar athyglisvert að á bls. 57 í frumvarpinu og áliti ráðuneytisins stendur þessi setning, með leyfi forseta:

„Í áætlun um veggjald er gert er ráð fyrir 7,0% virðisaukaskatti af gjaldtöku. Í því sambandi þykir rétt að benda á að komi til þess að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu er virðisaukaskattur af gjaldtöku í jarðgöngum í hæsta skattþrepi, án undantekninga.“

(VigH: Hneyksli.) Heldur betur. Ef Íslendingar æða inn í þetta Evrópusamband, sem við vonum að sjálfsögðu að verði ekki, er strax ljóst að þessi áætlun um veggjaldið gengur ekki upp, veggjaldið hlýtur að hækka miðað við það að virðisaukaskattur af því mun hækka.

Annað sem mig langar að nefna, herra forseti, í áliti ráðuneytisins í kaflanum um þjóðhagsleg atriði — ég er svona að tína til plúsa og mínusa sem koma þarna fram — er talað um margháttaðan þjóðhagslegan ávinning af verkinu, sameiningu atvinnusvæða o.s.frv. Þetta mun klárlega hafa jákvæð áhrif á þetta landsvæði.

Það sem er athyglisvert í frumvarpi fjármálaráðherra er að fjármálaráðherra leggur til að mér sýnist að ríkið taki þátt í að taka kúlulán. Ég veit ekki betur en að flestir er sitja í núverandi ríkisstjórn hafi gert miklar athugasemdir við slík lán sem voru veitt hér á svokölluðu góðæristímabili. Hér hefur verið beinlínis ráðist á þá sem tóku slík lán þegar þau voru í boði. Ég verð að segja, herra forseti, að það að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar skuli ætla að taka þátt í að taka risastórt kúlulán vegna þessara jarðganga er býsna athyglisvert í ljósi þeirra orða sem hafa fallið um íslenskt bankakerfi og fjármagnsumhverfi frá hruni, þannig að því sé haldið til haga.

Síðan er undir lokin í þessu áliti ítrekað að erfitt verði að skera úr um hvort sú vaxtatala sem reiknað með standist.

Síðan fylgja þessu frumvarpi þrjú nefndarálit. Ég er hér með tvö nefndarálit, frá 1. minni hluta og 2. minni hluta. Í nefndaráliti 2. minni hluta er forsaga verkefnisins og annað ágætlega rakið. Mér sýnist þó, herra forseti, að lesa megi út úr þessu að það hafi verið mistök að fara í þetta bix sem er um framkvæmdina í staðinn fyrir að ganga hreint til verks með hreina ríkisframkvæmd eða hreina einkaframkvæmd, en við erum stödd á þessum stað og þýðir ekkert að neita því.

Í nefndaráliti 1. minni hluta, en undir það skrifa hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson og Illugi Gunnarsson, er málið rakið eins og vera ber og þar er m.a. vitnað í bréf umhverfis- og samgöngunefndar. Þá kemur upp sú spurning sem mér finnst að menn þurfi að velta fyrir sér. Hvað í ósköpunum er þetta mál að gera hjá fjárlaganefnd? Þetta er samgönguverkefni. Það er auðvitað rétt að málið snýst um ábyrgð, en hér er um að ræða samgönguverkefni. Við erum að fara að bora jarðgöng. Ég er ekki alveg búinn að kaupa það að málið sé á réttum stað, þannig að það sé sagt.

Það sem vekur kannski einna mest athygli mína í nefndaráliti þeirra hv. þingmanna er þessi setning hér, með leyfi forseta:

„Nú hafa þessar efasemdir nefndarinnar verið staðfestar og þess vegna hefur fjármálaráðherra lagt fram þetta frumvarp. Er að mati 1. minni hluta umhugsunarvert að í frumvarpinu er tekin úr sambandi fjármálaregla, sem þó er fyrir hendi hjá ríkissjóði, til að koma í veg fyrir að ríkissjóður taki of mikla áhættu og verði fyrir fjárhagslegu tjóni.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Sökum þess að fyrrgreind regla er tekin úr sambandi þarf ábyrgðarþegi ekki að:

1. leggja fram að minnsta kosti 20% af heildarfjárþörf verkefnisins,

2. leggja fram viðeigandi tryggingar að mati Ríkisábyrgðasjóðs,

3. gæta þess að ábyrgð ríkissjóðs skuli ekki nema hærra hlutfalli en 75% af lánsfjárþörf verkefnis sem veitt er ríkisábyrgð.“

Það er mjög mikilvægt að hafa þetta í huga, herra forseti, og velta um leið fyrir sér þessari spurningu, sem mig langar til að hvetja þá sem vita til að svara: Byggir þessi ákvörðun á einhverju fordæmi? Hefur það verið gert áður að taka úr sambandi eina af mikilvægum reglum ríkisins til þess að aðlaga kerfið og reglurnar að því verkefni sem fyrir er? Eða, og sú spurning er kannski mikilvægust, erum við að skapa fordæmi sem mun verða nýtt á komandi tímum með einhverjum hætti?

Ég held að sé mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því, eða ég vil að minnsta kosti fá að vita það, hvort fordæmi eru til fyrir þessu. Ég vil líka, virðulegi forseti, að menn íhugi hvað er verið að opna á með þessari ákvörðun, með þeim fyrirvara að þetta hafi ekki verið gert áður.

Í áliti sínu ræðir 1. minni hluti einnig um helstu veikleika og fjallar þar um endurfjármögnunina, einnig vextina og að líklegt sé að þeir verði töluvert hærri en gert er ráð fyrir í forsendum verkefnisins.

Síðan gerir 1. minni hluti athugasemdir við atriði sem ekki er hægt annað en velta fyrir sér hvað geti þýtt og hvaða afleiðingar hafi. Það kemur fram hjá þeim er rita þetta nefndarálit, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir að fyrirtækið greiði tekjuskatt og er ekki að finna heimild í lögum til að undanskilja það skattgreiðslum. Undanþágan virðist einkum hafa áhrif á greiðslugetu fyrirtækisins eftir árið 2030 …“

Mig langar að fá það upplýst: Er með þessum gjörningi verið að veita heimild fyrir skattafslætti sem á sér ekki stoð í lögum? Það getur ekki verið að við eigum að fara að samþykkja lagabrot á Alþingi, ég vona í það minnsta að það sé ekki mjög algengt að við gerum það, ef við ætlum að gera það hér.

Síðan eru hér ýmsar aðrar athugasemdir. Það er gert ráð fyrir ómannaðri gjaldtöku. Við höfum heyrt áður mjög fjálglegar lýsingar á því hvernig slík gjaldtaka geti farið fram með gervihnöttum og GPS-búnaði o.s.frv. Ég óska eftir því að mér upplýstari menn upplýsi mig um hvar þetta er notað, hvernig það er framkvæmt og með hvaða árangri. Margt annað hér í þessu áliti mætti síðan nefna.

Herra forseti. Ég tek fram eins og ég sagði áðan að framkvæmd þessi er mikilvæg. Hún er góðra gjalda verð. En ég hef eins og svo margir aðrir efasemdir um hvernig að henni er staðið. Ég hef fulla samúð og skilning með íbúum norðaustursvæðis, Norðausturkjördæmis sem sjá mikilvægi þessarar samgöngubótar. Við Íslendingar vitum vel, hvort sem við búum á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni, hversu mikilvægar samgöngur eru. Við þekkjum það úti á landi að við komumst stundum ekki milli landshluta eða sveitarfélaga vegna ónýtra vega eða erfiðrar færðar. Á höfuðborgarsvæðinu eyða menn drjúgum hluta ævi sinnar í biðröðum í bílum. Það eru því alls konar hliðar á samgöngumálum.

Ég hef ekki farið hér yfir ákveðna hluti sem ég tel þó mikilvægt að fara í gegnum. (Gripið fram í: … seinna.) Kann að gera það seinna. Það er hins vegar mikilvægt að halda því til haga og ég vil að það komi fram að ég held að frá upphafi hafi þetta mál, eins gott og það er, því miður verið sett í eins klúðurslegan búning og hægt var.