140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsi mikilli ánægju með það að hæstv. ráðherra skuli koma hér upp og verja sínar stofnanir og þá starfsmenn sem þar eru. Og ef ég hef sagt eitthvað sem þessa ágæta stofnun átti ekki skilið biðst ég að sjálfsögðu afsökunar á því, en ég man reyndar ekki hvað það var.

Mig langar hins vegar að ítreka það að Vegagerðin, líkt og aðrar stofnanir, líkt og alþingismenn og ráðherrar og aðrir ríkisstarfsmenn, er ekkert hafin yfir gagnrýni og það er eitthvað sem við munum að sjálfsögðu gera.

Ég ætla að leyfa mér að gagnrýna Vegagerðina fyrir eitt þegar við ræðum tengivegi. Og mig langar að biðja hæstv. ráðherra næst þegar hann kemur norður í Skagafjörð að taka einn rúnt með mér, ef hann hefur ekki farið þann veg, þ.e. að taka hringinn í Hegranesinu eins og við köllum, herra forseti. Þar ákvað Vegagerðin fyrir mörgum árum að byggja upp hluta vegarins og það sem við sátum uppi með var mjór vegur með gríðarháum vegöxlum, sem ég held að hafi ekki bætt öryggi þeirra sem þar fara um mjög mikið. Ég hygg að það hefði verið skynsamlegra að leggja á þann lága og reyndar snjóþunga veg sem þar var. Ég veit alveg hvað Vegagerðin ætlaði sér á þeim tíma, það var að reyna að lyfta veginum upp sem er að sjálfsögðu mjög skynsamlegt en þarna fara hlutir oft ekki saman og það er kannski mjög erfitt að velja á milli þess að nýta fjármuni í að byggja upp vegi og að leggja beint á þá en ég hefði viljað sjá þær tilraunir gerðar.

Ég fagna því að vilji er til að setja meiri fjármuni í tengivegina, það er svo sannarlega mikilvægt því að oft og tíðum eru þetta vegir þar sem umferð er af þungum og miklum tækjum þannig að vegirnir spólast mjög fljótt upp. Að því leyti fagna ég þeim orðum sem hér hafa komið fram.