140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langaði eiginlega að taka þráðinn upp þar sem hv. þingmaður skildi við í andsvörum við hv. þm. Birgi Ármannsson þegar þeir veltu upp atriðum til að koma þessu máli út úr þeim ógöngum sem það er í með því að taka það aftur inn í nefnd og skoða hugsanlega á fundum með umhverfis- og samgöngunefnd möguleikann á því að leggja fjármuni strax í verkefnið auk þeirra tillagna sem hv. þm. Illugi Gunnarsson viðraði hér í dag.

Það sem mig langaði einmitt að velta upp og fá hv. þingmann til að fara aðeins betur yfir er: Erum við þá ekki akkúrat komin að því sem kemur fram í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs, að í rauninni sé um opinbera framkvæmd að ræða en ekki einkaframkvæmd? Um leið og ríkissjóður setur fjármuni í verkið, að því gefnu að ekki liggi fyrir hvernig félagið ætlar að fjármagna sig á almennum markaði hvað afganginn varðar, verður það opinber framkvæmd. Er framkvæmdin þá ekki komin í þá forgangsröðun sem er í samgöngunefnd? Um leið þurfum við þá að raða verkefnum eftir þeim sjónarmiðum sem þar gilda, umferðaröryggissjónarmiðum, byggðasjónarmiðum o.fl. í þeim dúr. Er hjá öðru komist en að taka þessi jarðgangaverkefni og ræða opinskátt hvert þeirra á að koma fyrst?

Það liggur ljóst fyrir að þetta er opinber framkvæmd. Það liggur ljóst fyrir að ríkissjóður þarf að setja fjármuni í verkið. Þetta voru þær vangaveltur sem mig langaði að velta upp við hv. þingmann. Er hjá því komist að fara í þessa vinnu og meta þessa framkvæmd í samanburði við Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng?