140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég talaði um togstreitu milli landshluta eða ákveðinna byggðarlaga var það ekki þannig í upphafi. Þegar farið var af stað var hugmyndin sú að þetta ætti að vera einkaframkvæmd og þá var hún bara á ábyrgð viðkomandi aðila. En eins og málið er komið hingað inn í þingið núna skapar það mikla togstreitu hjá þeim sem eru næstir inn miðað við samgönguáætlun vegna þess að hér er verið að taka verkefni fram fyrir sem lýtur alveg sömu skilyrðum og framkvæmdir í þeirri áætlun, enda er beinlínis mælt með því í frumvarpinu að ríkið taki verkefnið beinlínis til sín. Hæstv. innanríkisráðherra sagði í dag í ræðu að honum þætti augljóst, vegna þess hvernig málið kemur fyrir núna, að það færi í samgönguáætlun og yrði afgreitt, vegið og metið út frá því. Þannig hefur málið þróast.

Af því að hv. þm. Birgir Ármannsson talar hér um æfingar og hliðarskref og hvernig málið kemur inn í þingið, þá get ég tek sem dæmi að hugmynd vaknaði hjá hv. þm. Árna Johnsen um að gera jarðgöng til Vestmannaeyja. Hann talaði fyrir því í mörg ár og barðist fyrir því og mig minnir að stofnað hafi verið félag um það.

Það skiptir líka máli að þetta gefur fordæmi. Það á ekki að vera hægt að fara fram með einhverjar hugmyndir eins og hv. þm. Mörður Árnason talaði um áðan, og svo er allt í einu kominn mikill þrýstingur á ákveðið verkefni, búið að selja heimamönnum og hagsmunaaðilum verkefnið og allt í einu er málið bara borið fram á þingi og síðan þegar allt er að verða strand er krafist ríkisábyrgðar. Þetta gefur augljóslega fordæmi til framtíðar.