140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 20/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

610. mál
[13:59]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn á sviði fjármálaþjónustu.

Málið var tekið til meðferðar í nefndinni og komu á fund nefndarinnar embættismenn úr utanríkisráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Málið var sent til efnahags- og viðskiptanefndar og henni gefinn kostur á að gefa álit sitt á tillögunni. Ekki bárust athugasemdir frá henni um málið.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrrnefnda ákvörðun EES-nefndarinnar og til að fella inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1060/2009 um lánshæfismatsfyrirtæki.

Markmið reglugerðarinnar er að setja reglur sem eiga að tryggja að öll lánshæfismöt sem gefin eru út af matsfyrirtækjum sem eru skráð innan Evrópusambandsins séu af sambærilegum gæðum og unnin af matsfyrirtækjum sem lúta ströngustu reglum. Meginmarkmið reglugerðarinnar er að tryggja stöðugleika fjármálamarkaða og fjárfesta.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra til nýrra heildarlaga um lánshæfismatsfyrirtæki verða lagt fram á 141. löggjafarþingi. Efni tilskipunarinnar fellur að áherslum Alþingis og stjórnvalda á undanförnum missirum um að auka stöðugleika og draga úr áhættusækni í fjármálakerfinu. Eftir framlagningu mun frumvarpið að líkindum koma til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.

Hvorki er gert ráð fyrir að innleiðing þessarar reglugerðar hafi í för með sér teljandi efnahagslegar né stjórnsýslulegar afleiðingar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason, Ragnheiður E. Árnadóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.