140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Ég veit að hann situr í atvinnuveganefnd og hefur skipt sér af þessu máli og reynt að koma því á réttan kjöl. Mér skilst að það hafi gengið hálfilla í nefnd að fá meiri hlutann til að hlusta á rök annarra nefndarmanna og svo þeirra aðila sem komu til þess að bæta þá hörmung sem liggur hér fyrir.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í það þegar þáverandi hæstv. fjármálaráðherra skipaði 2. nóvember 2011 nefnd þriggja manna sem voru tilnefndir af honum og forsætisráðherra og ráðherra sjávarútvegsmála. Verkefnið fyrir þá nefnd var að móta heildstæða stefnu um framtíðarfyrirkomulag skattlagningar í sjávarútvegi. Það kemur fram í byrjun athugasemda við lagafrumvarp þetta. Er hægt að upplýsa hvaða aðilar þetta voru því að frumvarpið virðist byggja á þessu?

Svo langar mig til að spyrja hvort hafi komið fram í nefnd hvort þetta séu skattar eða gjöld því að þetta er ýmist kallað veiðigjöld eða gjaldtaka. Fyrir íslenskum lögum eru skattar og gjöld alls ekki það sama því að gjöld er heimilt að leggja á og þá skulu gjöldin öll renna til þeirra þátta sem fyrir fram er ákveðið í lögum en sköttum má ráðstafa á annan hátt. Hefur farið fram umræða um þetta í nefndinni og er vitað hvora leiðina á að fara samkvæmt frumvarpi þessu vegna þess að þetta er afar misvísandi? Þetta kemur fram í lagagreinunum, í textanum um lagagreinarnar og í athugasemdum. Það er grundvallarmál upp á ráðstöfun gjaldsins til framtíðar hvort um gjöld eða skatta er að ræða.