140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að taka sérstaka umræðu um svokallað auðlindagjald af náttúruauðlindum landsins. Það er eðlilegt að við skoðum það í samhengi. Margar atvinnugreinar nýta auðlindir landsins með einum eða öðrum hætti og eitthvert jafnræði þarf að vera á milli atvinnugreina. Það er einnig nauðsynlegt að við fáum okkar helstu sérfræðinga á því sviði að borðinu til að vinna það mál fyrir okkur.

Við eigum auðlindahagfræðinga sem eru í heimsklassa og það er í raun synd hversu lítið er hlustað á þá og gagnrýni þeirra. Er til einhvers að mennta þetta fólk ef það á síðan ekki að hlusta á það? (Gripið fram í.) Orð þeirra eru dregin inn í pólitískar vafaspurningar um að menn séu launaðir fyrir hitt og þetta, sem er í rauninni ómaklegt og ósmekklegt. Við getum ekki vænst þess að háskólasamfélagið muni hreinlega vilja við þessar aðstæður taka þátt í þeirri vinnu sem er nauðsynlegt að fá þá í með okkur í framtíðinni (Gripið fram í.) til að nýta þekkingu þeirra og reynslu á hverjum og einum vettvangi. Þannig verður það auðvitað að vera. Við eigum að undirbúa mál með sem faglegustum hætti.

Skattgreiðslur og auknir skattar þýða ekki endilega auknar tekjur. Það höfum við reynt að segja hæstv. ráðherra allt þetta kjörtímabil. (VigH: Já.) Hann er að læra af biturri reynslu. Við höfum dæmin fyrir okkur. Auknir skattar draga úr hvata, auka svarta atvinnustarfsemi og draga úr fjárfestingu. Ég hræðist virkilega í þessu máli núna, þegar okkur er svo mikilvægt að sú þarfa (Forseti hringir.) fjárfesting sem mögulegt er að fara í í íslenskum sjávarútvegi og er svo nauðsynleg fari af stað fyrir atvinnulíf um allt land, (Forseti hringir.) að veiðigjöldin hamli fjárfestingu og dragi (Forseti hringir.) úr atvinnu.