140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að gefa mér þá að hv. þingmaður hafi mismælt sig í ræðunni (Gripið fram í.) eða einhver smámistök hafi orðið vegna þess að það var mjög skýrt að hann lýsti vandamálinu sem hann kallaði framsalsvandann og í framhaldinu sagði hann veiðigjaldinu vera ætlað að lækna hann, en látum það liggja á milli hluta.

Hv. þingmaður talar um að veiðigjaldið sem lagt er til hérna sé hóflegt, 15 milljarðar, en er það alveg rétt, virðulegi forseti? Er verið að leggja til 15 milljarða? Ég hélt að núna á fimm árum ætti þetta að trappast upp úr 15 milljörðum í 21 milljarð og eina breytingin sem hefði gerst væri að það væri verið að hægja á því hvernig veiðigjaldið færi upp í fullt veiðigjald, (Forseti hringir.) 70% af framlegð. Mig langar því til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji, þegar búið er að leiðrétta þetta, að þetta sé (Forseti hringir.) enn hóflegt veiðigjald.