140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í ljósi þess fordæmis sem hæstv. forsætisráðherra setti hér fyrir nokkrum dögum tel ég tilefni til þess að virðulegur forseti geri hlé á þingfundi á meðan verið er að leita að hv. stjórnarliðum svo að þeir geti fylgst með og helst tekið þátt í umræðunni. Fyrir skömmu bað hæstv. forsætisráðherra um að hlé yrði gert á fundi vegna þess að ekki væru nógu margir hv. þingmenn í sal til að hlusta á boðskapinn. Það sama hlýtur að eiga við þegar við ræðum þetta mikla hagsmunamál.

Ef mér skjátlast ekki er hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, næstur í ræðustól. Það hlýtur að vera nokkurt áhyggjuefni ef þessi tilraun ríkisstjórnarinnar til að innleiða sósíalisma, sem birtist í frumvörpum hennar um stjórn fiskveiða, leiðir til þess að almenningur sveiflast frá vinstri yfir til hægri. (Forseti hringir.) Ég hvet því stjórnarliða (Forseti hringir.) til að koma og veita ákveðið mótvægi.