140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:52]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég tel að það hafi verið mjög mikil mistök af hálfu ráðherrans. Kannski er það vegna þess að ráðherrann hafði lent í tímaþröng, maður veit ekki, oft spila einhverjir slíkir mannlegir þættir inn í. Menn eru einfaldlega búnir að koma sér í þá stöðu að þeir hafa ekki lengri tíma og kannski hefur líka skort á viljann til að hlusta. Þess vegna eru málin kláruð án þess að leita samráðs og síðan er komið með þau inn í þingið.

Það hefur þá komið í ljós að slíkt skilar ekki betri árangri en raun ber vitni. Eins og ég rakti í ræðu minni áðan er alveg ótrúlegt að sjá þann langa lista yfir umsagnaraðila sem nefndin taldi nauðsynlegt að leita til þegar maður hefur í huga að ráðuneytið talaði ekki við nokkurn mann, það er alveg ótrúlegt. Vinnubrögð af þessu tagi eiga ekki að líðast og það á heldur ekki að líðast að svona stórt mál komi jafnseint fram á þinginu og raun ber vitni.

Varðandi hitt atriðið er ekki annað hægt en taka undir það með hv. þingmanni að þetta er allt mjög einkennilegt, að leggja fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu og þar með að lýsa því í raun yfir að menn vilji gangast undir fiskveiðistjórn þeirra á sama tíma og því er haldið hátt á lofti hér að við séum með besta kerfið.

Það er líka einkennilegt að tala fyrir því að við séum með kerfi sem hefur yfirburði yfir kerfi annarra landa en vera síðan stanslaust að ráðast að rótum þess kerfis með breytingum á borð við þær sem þegar hafa verið gerðar á þessu kjörtímabili og felast í þeim tveimur frumvörpum sem eru til meðferðar á þinginu í dag.