140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var í fyrsta lagi afar athyglisverð lýsing hjá hv. þingmanni á reikistjörnunni og ríkisstjórninni. Meðan reikistjarnan er náttúruundur held ég að ríkisstjórnin hljóti að vera náttúruslys. Það er verulegur munur á hvoru tveggja og ekki síst fegurðinni. Ef við erum að tala um reikistjörnu sem er Venus þá hlýtur ríkisstjórnin að vera raketta sem springur á endanum, frú forseti.

Það sem sagt var í mars um að eitthvað ætti að höfða til framsóknarmanna í því frumvarpi sem lagt var hér fram var einfaldlega rangt. Þegar frumvarpið kemur fram er það fyrst og fremst stóra myndin sem er eitthvað í líkingu við það sem Framsóknarflokkurinn sendi frá sér á flokksþingi sínu. Það er stóra myndin um að hér eigi að byggja á aflamarkskerfi, aflahlutdeildarkerfi, og gera nýtingarsamninga. Aðrar útfærslur á þessum hlutum eru með allt öðrum hætti í okkar ályktun.

Við höfum til dæmis lagst gegn því að búið sé til eitthvert leiguliðafyrirkomulag. Það kann að vera að ríkisstjórnin vilji slíkt. Það er náttúrlega líka ljóst að þau veiðigjöld sem hér er verið að fjalla um eru ekki hófleg eins og sagt var í stefnu framsóknarmanna. Þetta eru allt annað en hófleg veiðigjöld. Það er kannski meginmunurinn á þessum stefnum, öll útfærslan hjá ríkisstjórninni er algjörlega úr takti við það sem flokksþing framsóknarmanna samþykkti.

Stóra myndin er hins vegar mjög keimlík, en hún er líka keimlík því sem kom úr sáttanefndinni á sínum tíma, 23 manna nefndinni. En þegar maður er búinn að byggja hús, ég orða það bara þannig, þá innréttar hver húsið eftir eigin smekk og þörfum.