140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Í þessari umræðu hafa komið fram nokkuð ólík sjónarmið frá því að hún hófst. Ég ætla fyrst að gera aðeins að umtalsefni þá umræðu sem varð í gær, og að einhverju leyti í morgun, hjá einstökum þingmönnum stjórnarliðanna, ekki síst Samfylkingarinnar og jafnvel hjá hæstv. forsætisráðherra. Umræðan um sjávarútveginn snýst á grunni þess að menn eru með allt að því hatursfullar yfirlýsingar í garð útgerðarmanna og uppnefna þá ýmsum nöfnum. Forsendan fyrir þeirri frasakenndu og neikvæðu umræðu virðist vera sú að menn eru sífellt að hnýta í það sem gerðist hér fyrir mörgum áratugum. Ég held að sannarlega hafi það verið mistök að gera mönnum kleift að ganga út úr greininni á þeim tíma með verulegan hagnað og skilja skuldirnar eftir hjá þeim sem eftir stóðu. Það er staðreynd, frú forseti, að þeir sem eftir stóðu og tóku á sig þá hagræðingarkröfu sem enginn vildi taka á sig — þetta er svona svipað og með litlu gulu hænuna á sínum tíma — voru þeir sem eru enn starfandi í greininni. Þeir hafa starfað þar í 40, 50 ár, hjá mörgum og jafnvel eldri fyrirtækjum, og þeir tóku á sig hagræðinguna að kaupa út aðra aðila til þess að gera flotann eins hagkvæman og hann svo sannarlega er og gera greinina öfluga í að skapa tekjur fyrir samfélagið.

Umræðan hefur hins vegar gjarnan verið í öfundartóni og neikvæð um þá sem fóru út úr greininni og hefur ekkert með þá að gera sem eru í greininni í dag. Sjávarútvegurinn er sem betur fer gríðarlega öflug atvinnugrein. Við þær aðstæður sem nú hafa skapast, meðal annars vegna þess að fyrri umræður um það sem stjórnmálamenn þess tíma tókust á um, þ.e. um það hvort hér ætti að vera sóknarmark eða aflamark og kvótakerfi, leiddu til þess að sú leið sem var farin, þ.e. að velja aflamark og það kvótakerfi sem hér hefur verið við lýði, hefur annars vegar gert það að verkum að menn hafa getað byggt upp stofna sem við njótum ríkulega ávaxta af. Það virðist vera að á næstu árum séu nokkuð miklar líkur á því að hægt verði að auka þorskveiðar umtalsvert vegna þess að hér hefur verið farin ábyrg leið við að byggja upp stofninn með takmarkaðri sókn. Og hins vegar að við þá hagræðingu sem greinin sjálf hefur tekið á sig hefur orðið hagvöxtur og vöxtur í greininni umfram það sem annars mætti telja eðlilegt, sem er umtalsverður og gæti uppsafnaður verið um 50 milljarðar í dag. Þjóðfélagið nýtur góðs af akkúrat því kerfi sem hér er hamast á daginn út og daginn inn. Það eru forsendurnar fyrir þeirri umræðu, svo þær séu nokkuð skýrar, frú forseti.

Umræðan um hvað sé hóflegt veiðigjald hefur farið út og suður, vil ég meina. Ljóst er að þær hugmyndir sem ríkisstjórnarflokkarnir komu fram með í frumvarpinu á sínum tíma voru svo langt frá því að teljast hóflegar að það hálfa væri nóg og frumvarpið var reyndar hrákasmíð. Menn gátu lesið út úr því þegar sérfræðingar fóru að skoða það að skattlagningin næmi ekki 70%, sem ég held að flestum þætti nú nóg um, heldur 140%, og að niðurstaðan væri sú að stór hluti greinarinnar mundi ekki standa undir því.

Þegar menn hafa síðan farið yfir frumvarpið og lesið umsagnir hefur meiri hlutinn komið með breytingar sem allar eru til bóta, sumar mjög eðlilegar, og óskiljanlegt að sumt hafi ekki verið í frumvarpinu, eins og til dæmis að ef um neikvæða rentu væri að ræða þyrftu menn að greiða af henni engu að síður en ættu síðan ekki möguleika á að draga hana frá rentu næstu ára. Þetta er auðvitað eitthvað sem enginn skilur. Við þekkjum það til dæmis úr skattalögum að menn fá endurgreitt eða geta nýtt skattalegt tap á næstu árum. Slíkt ákvæði er komið inn og er, eins og ég segi, óskiljanlegt að það skuli ekki hafa verið í upphaflega frumvarpinu. Síðan eru nokkrar breytingartillögur sem eru tilraunir til þess að lagfæra vonlausa aðferðafræði, ég ætla að koma aðeins betur inn á það.

Varðandi það hvað sé hóflegt veiðigjald hljóta forsendurnar fyrir slíku mati fyrst og fremst að vera þær hvort fyrirtækin í atvinnugreininni geti staðið undir gjaldtökunni án þess að það raski þeim möguleika að greinin haldi áfram að þróast, stunda nýsköpun, sækja fram á nýjum sviðum sem greinin hefur gert sjálf og skapað sér veiðireynslu. Það hefur enginn opinber aðili hingað til greitt fyrirtækjum fyrir það að sækja út á miðin til að leita að nýjum stofnum. Það gerðu fyrirtækin á eigin kostnað og hægt er að nefna makrílveiðarnar sem dæmi. Það lýsir miklu skilningsleysi hjá stjórnarliðum þegar þeir ætla að ganga svo hart fram í skattlagningunni að fyrirtækin munu hreinlega ekki hafa efni á því að taka þátt í nýsköpun og stækka þannig kökuna sem þjóðin byggir afkomu sína að stóru leyti á.

Það getur heldur ekki talist hóflegt ef skattlagningin verður með þeim hætti að fyrirtækin geti ekki fjárfest eðlilega, endurnýjað tæki og tól, skip og vinnslur. Ég vil því halda því fram, frú forseti, að þær hugmyndir sem menn lögðu af stað með og samspil aðferðafræðinnar endaði í þeirri afar óhóflegu gjaldtöku sem lögð var til. Eftir breytingartillögurnar lækkaði hún um 6–7 milljarða og menn hafa verið að stæra sig af því að komið hafi verið til móts við greinina um 6–7 milljarða. Þá má spyrja á móti og ganga alveg í hinar öfgarnar, og það hljómar alveg jafnsérkennilega: Ef frumvarpið hefði lagt til 100 milljarða gjaldtöku og stjórnarflokkarnir hefðu síðan komið með afslátt upp á 85 milljarða, væri það þá frábært hjá stjórnarflokkunum að koma með 85 milljarða lækkun? Þetta er sambærilegt dæmi þó að það sé auðvitað ýkt. Það er því ekki hægt að ræða það hvort gjaldtaka sem endar í 15 milljörðum — eftir þeim upplýsingum sem ráðuneytið og meiri hlutinn lýsir yfir sem sérfræðingar hafa ekki fengið tækifæri til að reikna nákvæmlega út hvort sé rétt — sé hóflegt, af því að menn hafa lækkað hinar geggjuðu hugmyndir um 6–7 milljarða. Sumir héldu því reyndar fram að það væri umtalsvert hærra. Það getur ekki verið grundvöllur umræðu um hvað sé hóflegt.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins, fjárlagaskrifstofu, sem fylgir frumvarpinu er fjallað um veiðileyfagjald og þar stendur, með leyfi forseta:

„Miðað við meðaltal alls tímabilsins 2001–2010 yrðu tekjur að jafnaði 11,8 milljarða kr. Það eru nánast jafn miklar tekjur og reiknað er með að veiðigjald muni skila frá og með árinu 2013 í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2012–2015, sem fjármálaráðuneytið lagði fram sl. haust, en þar er reiknað með 11 milljarða kr. tekjum af veiðigjaldi.“

Ég ítreka það og tek það aftur upp hér að í ríkisfjármálaáætlun reiknar fjármálaráðuneytið með 11 milljarða kr. tekjum, ekki 15, heldur 11 milljarða kr. tekjum.

Síðan stendur áfram í umsögninni, með leyfi forseta:

„Verði aflabrögð, verð á mörkuðum og gengi krónunnar svipuð og á síðustu árum má því gera ráð fyrir að á næstu árum geti veiðigjöld skilað um og yfir 20 milljarða kr. tekjum á ári í ríkissjóð í nánustu framtíð.“

Það er auðvitað mun hóflegra gjald, 11 milljarðar, sem fjármálaráðuneytið og ríkisfjármálaáætlunin leggur fram og lagði fram síðasta haust, og bjóst við að yrði tekið af greininni, heldur en 15 milljarðar. Ef aflabrögðin og verð á mörkuðum og gengi krónunnar, allt þetta, heldur áfram með svipuðum hætti og verið hefur mun það hækka í 20 milljarða. Ég fór aðeins yfir það í fyrri ræðu minni: Er það þá stefna ríkisstjórnarinnar að viðhalda svona lágu gengi?

Í umsögn ASÍ benda þeir á þessa þverstæðu, að þetta samrýmist ekki þeim yfirlýsingum sem gefnar voru við kjarasamninga og munu hugsanlega valda því að kjarasamningar nái ekki fram að ganga.

Það eru líka miklar efasemdir um verð á mörkuðum í frjálsu falli evrunnar og Evrópusambandsins og enginn veit hvar það endar. Einnig er hægur hagvöxtur í Bandaríkjunum með afleiðingum um allan heim, þannig að við vitum ekki hvort verð á mörkuðum muni haldast óbreytt. Við getum verið nokkuð bjartsýn á að aflabrögð muni verða mjög góð, alla vega hvað varðar þroskinn, og jafnvel enn betri en verið hefur. Að reikna með því að þessi veiðigjöld fari úr 11 milljörðum, sem er þó mun hóflegri niðurstaða en 15, og stefni í 20 milljarða, á því eru verulegar efasemdir, frú forseti.

Einnig er fjallað um það í umsögninni að afkoman í sjávarútvegi sé sveiflukennd og þess vegna megi búast við að tekjur af veiðigjöldum og rentunni í veiðum og vinnslu, sem ég ætla aðeins að koma inn á á eftir, verði mismiklar eftir árum og tímabilum. Þess vegna er það skoðun mín, og kemur fram í nefndarálitinu sem ég skilaði sem fulltrúi Framsóknarflokksins í atvinnuveganefnd, að það sé miklu skynsamlegra þegar menn leggja af stað í slíka gjaldtöku, eða verulega hækkun frá því sem verið hefur, að menn hafi ákveðin varúðarsjónarmið uppi um að greinin geti gert þetta án þess að það raski möguleikum hennar á að halda áfram að þróa og skapa ný störf, finna nýja stofna og þróa iðnaðinn. Sá ljóður er á umræðunni um sjávarútveg hjá þeim sem stunda frasakenndu, hástemmdu yfirlýsingarnar hér í ræðupúlti, eins og ég kom inn á í upphafi máls míns, að menn gleyma því ansi oft að sjávarútvegurinn er hátæknivæddur matvælaiðnaður sem er búinn að selja vöruna á markaði áður en menn fara út og veiða hana. Þetta snýst ekki um að einhverjir séu að fara út að veiða fisk og reyna að selja hann á sem hæstu verði í landi. Þannig hefðum við aldrei náð þeim gríðarlega hagvexti og umframhagvexti miðað við aðrar þjóðir sem við höfum náð. Þar er samspil veiða og vinnslu lykilatriði og eitt af því sem gerir sjávarútveg okkar frábrugðinn til dæmis sjávarútvegi Norðmanna.

Aðeins áfram um hóflega gjaldtöku. Í þeim hugmyndum sem liggja til grundvallar í veiðigjaldafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er notast við gamlar tölur. Aðferðafræðin sem útreikningarnir eru byggðir á byggja einnig á gömlum tölum og það hefur verið ein helsta gagnrýnin sem hefur komið á þá aðferðafræði. En varðandi þau opinberu gjöld sem munu leggjast á greinina vegna ársins 2011, og eru að koma í ljós, eru veiðigjöld upp á 4,5 milljarða komin fram. En það sem hefur ekki komið fram, alla vega ekki skýrt í umræðunni, er að greinin hefur sennilega og mun sennilega skila um 5 milljörðum í tekjuskatt, sem er umtalsverð hækkun á tekjuskatti frá fyrri árum. Þeir frasakenndu þingmenn sem koma hingað upp og æpa reiðilestur í átt að útgerð og sjávarútvegi hafa talað um að þessi gríðarlega mikilvæga grein hafi skilað um milljarði í tekjuskatt af allri sinni veltu. Og það er rétt í sögulegu samhengi.

Á árinu 2010 greiddi greinin um 2,7 milljarða í tekjuskatt og það stefnir í að hún muni greiða um 5 milljarða á árinu 2011 og væntanlega greiða enn hærri upphæð á árinu 2012 við áframhaldandi góðan vöxt og góð skilyrði í greininni eins og við fórum aðeins yfir áðan. Þetta þýðir að á árinu 2011 greiddi greinin um 9,5 milljarða í opinber gjöld, þ.e. veiðigjald og tekjuskatt, í ríkissjóð. Það eru umtalsverðir fjármunir. Þegar við horfum núna á veiðigjaldið upp á 15 milljarða, ef það yrði niðurstaðan sem kemur út úr breytingartillögunum, að sögn og yfirlýsingu ráðuneytis og meiri hlutans, mun það auðvitað hafa þau áhrif að lækka tekjuskattinn að einhverju leyti. Mín skoðun er því sú að miklu skynsamlegra sé að hafa það varúðarsjónarmið að veiðigjaldið sé lægra — miklar deilur eru um hvernig það er reiknað út og hvernig það bitnar á einstökum fyrirtækjum og útgerðarflokkum — af því að þá muni tekjuskatturinn verða hlutfallslega hærri. Og hann er sannarlega á fyrirtæki sem eru með raunverulegan hagnað, ekki meðaltalsútreikning á gömlum tölum, heldur sannarlega niðurstöður úr ársreikningi. Hann mun þannig leggjast á greinina með hóflegri hætti í heild, þó að einstök fyrirtæki mundu sjálfsagt telja að þau væru skattlögð allverulega. Það er hin rétta leið til að ræða hvað sé hóflegt.

Ég fór í fyrri ræðu minni nokkuð ítarlega yfir greiðslugetu einstakra fyrirtækja og ýmsir þingmenn hafa einnig gert það í umræðunni. Þar spilar skuldastaða þeirra langsamlega stærsta þáttinn og hún er gríðarlega misjöfn. Til eru fyrirtæki í sjávarútvegi sem eru skuldlaus eða skuldlítil og þau greiða þá augljóslega mjög háan tekjuskatt og munu greiða verulega hátt veiðigjald, því að breytingartillögurnar snúa að því að reyna að aðlaga það að þeim fyrirtækjum sem eru skuldsett, en þær eru flóknar. Við vitum það ekki nákvæmlega, við höfum ekki séð það og ekki hefur verið lagt í þá vinnu enn að sjá hvernig það kemur hreinlega niður á einstök fyrirtæki, en það skiptir máli. Þegar breytingartillagan var komin fram fengum við á fundi þá sérfræðinga sem stóðu að greinargerðinni sem atvinnuveganefnd bað um, Daða Má Kristófersson og Stefán B. Gunnlaugsson, reyndar var það fyrst og fremst Daði Már sem gat mætt á þá fundi, og hann stóð við þá niðurstöðu þeirra í greinargerðinni að gjaldið mundi hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir fjöldann allan af fyrirtækjum.

Bent hefur verið á að innan greinarinnar sé mjög ólík staða, ekki bara milli einstakra fyrirtækja heldur líka milli útgerðarflokka. Þannig hefur til dæmis komið í ljós að í krókaaflamarkskerfinu, hefðu bæði frumvörpin, þ.e. frumvarpið um stjórn fiskveiða og frumvarpið um veiðigjöldin, náð fram að ganga væru um 80% fyrirtækjanna þar gjaldþrota. Þær breytingartillögur sem gerðar eru þarna munu hafa gríðarleg áhrif á þennan fjölda fyrirtækja — ég ætla ekki að lýsa því yfir hér án þess að hafa getað skoðað það nægilega að þau séu öll gjaldþrota — en þær munu hafa gríðarleg áhrif á getu þeirra til að standa undir skuldum. Er það þá meiningin hjá stjórnvöldum að gjaldfæra fyrirtækin með opinberum gjöldum með þeim hætti að vandanum verður ýtt yfir á bankakerfið? Það má svo sem hugsa sér það. En á hverjum lendir það þar? Það lendir jú fyrst og fremst á Landsbankanum sem hefur lýst því yfir að ef þessi frumvörp muni ganga fram óbreytt yrði afskriftarþörf Landsbankans vegna sjávarútvegsins um 31 milljarður. Þá virðast þessir sömu stjórnarliðar gleyma því að Landsbankinn er ríkisbanki eða um 87% í eigu þjóðarinnar og mun það þar af leiðandi koma niður á honum að þjónusta aðrar greinar og landsmenn alla og takmarka getu bankans til að koma til dæmis til móts við skuldsett heimili.

Einnig er hægt að benda á að gríðarlegt samspil er á milli þessara frumvarpa, annars vegar um stjórn fiskveiða og hins vegar um veiðigjöld. Er auðveldast að benda á hina óháðu sérfræðiskýrslu og fjölmargar umsagnir frá hagsmunaaðilum sem gátu hreinlega reiknað út hvernig þessi áhrif yrðu á hvert og eitt fyrirtæki eða útgerðarflokka. Það sem líka var áhugavert að sjá var að það gerðu sér fleiri grein fyrir alvarleika málsins. Í fyrri ræðu minni fór ég aðeins yfir umsögn Alþýðusambands Íslands sem benti á þá þætti sem takmörkuðu getu útgerðarinnar til að stunda hagkvæman rekstur, halda áfram nýsköpun, þróun og fjárfestingu, allt þetta mundi takmarka getu fyrirtækjanna til að afla þjóðartekna og það yrði neikvætt fyrir samfélagið. Sérstaklega benti ASÍ á að 40:60% skiptingin sé óásættanleg, þ.e. þegar ákveðnu marki er náð í einstökum tegundum, eins og þorski um 202 þús. tonn og ýsu, ufsa og öðrum tegundum, mundi um 40% af því aflamarki sem úthlutað yrði sett inn í pott 2 sem augljóslega er ekki hinn hagkvæmi útgerðarflokkur. Það er viðurkennt, því að þar er verið að stunda byggðatengdar aðgerðir sem augljóslega eru þá þvert gegn hagkvæmninni en hins vegar kannski sú málamiðlun sem við viljum sjá til þess annars vegar að tryggja atvinnu og byggð í landinu, þá möguleika, jafnrétti og rétt manna til að stunda atvinnu í heimabyggð sinni þar sem fiskimiðin eru mest. Hin leiðin væri sú, og á hana hafa sumir bent, þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt til að hér fari allt á uppboð á einn stað. Hin alvarlega afleiðing af óheftu uppboði yrði væntanlega sú að hér yrðu örfá fyrirtæki gríðarlega stór sem mundu stunda útgerð á grundvelli hagkvæmni eingöngu og það er eitthvað sem ég vil ekki sjá. Ég vil sjá blandaða leið en takmarka þau neikvæðu áhrif sem þessar aðgerðir hafa í för með sér í frumvarpinu um stjórn fiskveiða, sem hafa gríðarleg áhrif á getu þeirra til að greiða veiðigjöld. Það er mér óskiljanlegt að þingmenn stjórnarliða hafi komið hingað upp — jafnvel þingmenn sem sitja í atvinnuveganefnd og hafa fengið allar þessar umsagnir og gesti á fundina og spurt aðra þingmenn hvernig samspilið hafi áhrif — og lýst því yfir að þeir sjái ekki þetta samspil þegar nær allir umsagnaraðilar, jafnt óháðir sem tengdir, eins og sveitarfélög eða hagsmunaaðilar greinarinnar, einnig verkalýðsforustan og aðrir, endurskoðunarfyrirtæki og fjármálastofnanir sögðu einfaldlega að forsenda fyrir því að fara þá leið að greiða svona há veiðigjöld — og þá er ég ekki endilega að tala um 15 milljarða, það gæti verið lægri tala eins og ég benti á með fjárlagafrumvarpinu upp á 11 milljarða — væri sú að fyrirtækin fengju tækifæri til að búa til þær tekjur en yrðu ekki af þeim teknar með því að taka 3% af hverri sölu til ríkisins og færa í pott 2, að banna framsal eftir 2032 og taka þannig út einn þann þátt sem hefur valdið einna mestri hagkvæmnisaukningu í greininni í gegnum áratugina frá því að það var sett inn. Það má hins vegar takmarka leiðirnar til þess og það er í frumvarpinu og í stefnu Framsóknarflokksins, 40:60% reglan sem ég nefndi áðan um að ákveðnu marki sé náð sé farið 40% yfir.

Svo er annað umdeilanlegt, sem er ekki í stefnu okkar framsóknarmanna, að þó nokkrir umsagnaraðilar sjá ákveðna möguleika í leigupottinum. Við höfum verið andsnúnir þeirri leið að ríkið sé að vasast í greininni með því að vera með aflaheimildir og leigja þær út. Allt þetta sem fært er úr aflamarkskerfinu í dag, bæði minna kerfinu og stóra kerfinu, og fært í pott 2 þar sem það er ráðherrastýrt, pólitískt stýrt, minnkar hagkvæmnina í greininni. Það minnkar möguleika greinarinnar til að greiða veiðigjald og minnkar möguleikana á að greinin haldi áfram að þróast í þá átt sem hún hefur verið að gera. Það eru fá lönd í heiminum ef nokkur sem geta státað af jafnöflugum sjávarútvegi.

Ef við horfum á Evrópusambandið, af því að þær viðræður dúkka hér oft upp í nánast öllum málum, þar er sjávarútvegur ekki rekinn sem raunveruleg atvinnugrein. Þar er sjávarútvegurinn að stærstu leyti rekinn á ríkisstyrkjum, á styrkjum frá hinu opinbera. Í Noregi, sem er gríðarlega ríkt land með öflugan sjávarútveg, er hluti af sjávarútveginum rekinn á forræði hins opinbera. En við höfum farið aðra leið alveg frá því að kvótakerfið var sett á. Menn sögðu: Ríkið hefur ekki efni á því að fara inn í greinina og hagræða á kostnað ríkisins, ríkið mun ekki leggja fé í það, þið verðið að gera það sjálf. Alveg frá þeim tíma hefur greinin verið sjálfbær og vöxturinn alveg gríðarlegur.

Ég ætlaði að fjalla um samráðsleysið, ég gerði það reyndar í fyrri ræðu minni, en það er sérstakt. Ég ætlaði jafnframt að ræða aðeins um þá sérfræðinga sem hafa verið kallaðir til í atvinnuveganefnd. Það var áhugavert að heyra viðtal á einum ljósvakamiðlinum einn morguninn við einn hv. þingmann í atvinnuveganefnd þar sem spurt var einfaldlega þeirrar spurningar hverjir væru sérfræðingar ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna sem hefðu talað fyrir því að þessar leiðir yrðu farnar. Þingmanninum var orða vant því að satt best að segja hafa engir sérfræðingar komið fram aðrir en sérfræðingar ríkisstjórnarinnar, pólitískir ráðgjafar úr ráðuneytinu. Engir fræðimenn, engir sérfræðingar frá endurskoðunarfyrirtækjum, fjármálastofnunum, hagsmunaaðilum eða verkalýðsforustu hafa stutt þetta. Ekki einu sinni sá ágæti og mæti prófessor Þórólfur Matthíasson sem stundum hefur nú tekið undir það sem Samfylkingin hefur lagt fram. Hann sá ekki neina vitglóru í þessu og vildi reyndar fara allt aðrar leiðir.

Ég nefni þetta til að menn átti sig á því að allar þær umsagnir sem komu, nánast undantekningarlaust, ég held að Samfylkingarfélagið í Reykjanesbæ hafi verið það eitt sem var ánægt með þetta, bæði meiri hlutar og minni hlutar í sveitarfélögum og bara yfir allt landið sáu menn ekki neina vitglóru í þessu. Satt best að segja hefur fólk á landsbyggðinni gríðarlegar áhyggjur af því hvernig þetta mál endar, einfaldlega vegna þess að það sér að þetta mun hafa gríðarlegar neikvæðar afleiðingar fyrir sína byggð, sveitarfélag sitt, fyrirtæki í heimahéraði. Og mörg fyrirtæki, langflest vil ég nánast fullyrða, hafa gríðarlega samfélagslega sterka ábyrgðartilfinningu og sýna byggðarlagi sínu mikla tryggð, styðja við bakið á öllum þeim þáttum sem þar eru og taka þátt í því að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf, fjölbreyttara menningarlíf, íþróttalíf og annað í þeim dúr.

Ekki er hægt að ljúka máli mínu öðruvísi en að minnast á að um gríðarlega ofsköttun á landsbyggðina er að ræða. Hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson og Eygló Harðardóttir hafa farið ítarlega yfir álit Vífils Karlssonar sem hefur bent á að um 75% af umsvifum ríkisins séu á höfuðborgarsvæðinu en aðeins um 40% af skatttekjunum, svo dæmi sé tekið. Þóroddur Bjarnason, einn sérfræðinganna sem komið hafa að þessum málum, hefur komið fram með tillögur og ábendingar sem benda til þess að við séum að færa gríðarlega fjármuni af landsbyggðinni inn í ríkiskassann. Það hefur, frú forseti, óneitanlega mjög neikvæð áhrif á allar þær byggðir sem fjárstreymið er úr. (Forseti hringir.) Menn telja að þetta sé ósanngjörn leið til að skattleggja og ekki hægt að telja hana hóflega né skynsamlega.