140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[15:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla í örstuttu máli að koma inn á þau sjónarmið sem nefndin rekur í nefndarálitinu en fyrir nefndina komu gestir sem höfðu áhyggjur af því að þarna væri verið að lögfesta of sterk réttindi til handa nákomnum ættingjum varðandi umgengni. Ég tel að þetta nefndarálit svari ágætlega þeim spurningum sem vöknuðu við yfirferð nefndarinnar á þessu atriði. Það er alveg skýrt að hér er ekki um að ræða að þau réttindi sem kynforeldri á færist yfir á nákomna ættingja ef um andlát kynforeldris er að ræða. Við reyndum að átta okkur á því vegna þess að, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á, hér er í rauninni ekki verið að innleiða breytingar heldur hafa ákvæðin, með lítillega öðru orðalagi um þetta atriði, verið í barnalögum og þess vegna lék okkur forvitni á að vita hversu oft hafi reynt á þau réttindi til að öðlast umgengni við barn. Það er sjaldgæft að á þetta reyni. Þess vegna er reynslan af því ákvæði sem þegar er í barnalögum kannski lítil, en við gátum ekki fundið þess stað í þeirri eftirgrennslan sem nefndin fór í að veruleg vandkvæði væru varðandi það að hafa ákvæði sama efnis inni í löggjöfinni. Það er ágætt að það kom fram í meðferð nefndarinnar og þess vegna tel ég rétt að standa að þessu nefndaráliti sem við fulltrúar allra flokka gerum sem sæti eiga í velferðarnefnd.

Að öðru leyti langar mig að þakka nefndinni fyrir gott samstarf. Það var að okkar beiðni sem þetta mál var tekið sérstaklega upp í nefndinni og það voru allir sammála um að gera það þannig að reyna að fara eins vel yfir þetta atriði og nefndarmenn frekast gátu.