140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[18:25]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum við 3. umr. að greiða atkvæði um ný barnalög. Eins og fram hefur komið hafa verið skiptar skoðanir í nefndinni. Skiptar skoðanir hafa líka verið hjá umsagnaraðilum. Þetta er niðurstaða velferðarnefndar. Það er hún sem tekur málið í sínar hendur og vinnur með það í þinglegri meðferð. Málið fékk vandaða umfjöllun. Það þurftu eins og fram hefur komið flestir að gefa eitthvað eftir af sínu til að ná málamiðlun en ég ítreka að barnalög eiga alltaf að vera í þróun. Það er ekki ein lína sem ríkir þar. Þau eiga alltaf að vera í þróun og þau þurfa að taka mið af því sem er barninu fyrir bestu. Oftar en ekki hafa þau tekið mið af því að foreldrar eru ósáttir.

Í þessum barnalögum er lagt til að barni verði skipaður talsmaður ef á þarf að halda. (Forseti hringir.) Það er framför. Barnalögin eins og þau eru nú eru framför og ég skora á þingheim að samþykkja þau.