140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:17]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Á síðustu 100 árum eða svo hafa þingmenn og Alþingi Íslendinga verið ósammála um fleiri hluti en hægt er að telja upp. En þeir virðast þó alltaf hafa verið sammála um að það væri þjóðþrifamál að reyna að halda landinu okkar að sem mestu leyti í byggð. Forsenda þess að landið sé í byggð er gott samgöngukerfi.

Hér er um að ræða framkvæmd; frumkvæðið að henni kemur úr héraði. Það er með mikilli ánægju sem ég sem þingmaður Reykvíkinga styð þetta mál vegna þess að ég lít á svo á að það að hafa Ísland í byggð sé ekki hagsmunamál þeirra einna sem búa úti á landi heldur hagsmunamál allrar þjóðarinnar.