140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sjónarmiði sem kom fram hjá hv. þingmanni að það er ekki bara einkamál þeirra sem búa úti á landsbyggðinni að landið haldist í byggð. Þess vegna meðal annars höfum við komið okkur upp samgönguáætlun til að ná fram sátt á Alþingi um það í hvaða röð við ráðumst í framkvæmdir.

Hér er, virðulegi forseti, augljóslega um opinbera framkvæmd að ræða og vont og hættulegt fordæmi skapast ef við ákveðum að afgreiða þessa framkvæmd fram hjá því kerfi sem við höfum búið til og meðhöndla hana eins og um sé að ræða einkaframkvæmd. Það er augljóst að ríkið ætlar að lána alla þá fjármuni sem þarf fyrir utan það hlutafé sem komið hefur að norðan — sem er auðvitað þakkarvert framtak. Það verða um það bil 600 millj. kr. en til stendur að ríkið láni 8,7 milljarða.

Það sér hver maður að hér er um opinbera framkvæmd að ræða, ríkisframkvæmd. Fjármunir koma úr ríkissjóði og það stendur raunverulega til að líta svo á að augljós fjárfesting eigi að meðhöndlast sem lánveiting. Og það er augljóslega eitthvað rangt við það, virðulegi forseti.