140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég sat í samgöngunefnd fram til síðasta þings og þá voru mér kynntar forsendur þessarar framkvæmdar og sérstaða þeirra. Mér fannst þetta skynsamlegt og ég studdi fyrstu skrefin sem stigin voru með stofnun félags um framkvæmdina. Afstaða mín hefur ekki breyst. Menn tala stundum eins og áhættan sé sú að allur kostnaðurinn lendi á ríkinu en svo er auðvitað ekki. Áhættan er sú að mögulegur hluti kostnaðar lendi á ríkinu og þá verður maður einfaldlega að vega og meta hvort ávinningurinn sé meiri.

Niðurstaða mín er sú að samfélagslegi ávinningurinn sé meiri og það réttlæti áhættuna. Ég held að þetta sé góð samgönguframkvæmd og mjög mikilvæg fyrir alla landsmenn. Ég fagna því líka að á sama tíma er verið að flýta Norðfjarðargöngum og Dýrafjarðargöngum.