140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég hef stutt áform um Vaðlaheiðargöng á öllum stigum málsins fram til þessa. Ég studdi hugmyndina um að flýta framkvæmdinni með veggjöldum. Ég tek undir með þeim sem hér tala um þá miklu samgöngubót sem framkvæmdinni fylgir. Hins vegar tel ég að á þessu stigi málsins hafi menn farið út af sporinu og hafi klúðrað tækifæri til að láta framkvæmdina eiga sér stað á þeim forsendum sem frá upphafi var lagt upp með.

Fram undan eru í ríkisfjármálum margar erfiðar ákvarðanir fyrir okkur Íslendinga og það mun reyna á aga og vilja til þess að standa við ákveðin prinsipp á komandi árum. Þau prinsipp er ég ekki tilbúinn til að leggja frá mér og greiða þannig atkvæði með þeirri útfærslu á framkvæmd Vaðlaheiðarganganna sem hér liggur fyrir þinginu. Ég vonast síðan til þess, verði málið samþykkt, að sú áhætta sem tekin er með (Forseti hringir.) þessari útfærslu verði á endanum ekki til þess að ríkið sitji uppi með tjónið en um það get ég ekki fengið neinu ráðið í dag og segi þess vegna nei.