140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

veiting ríkisborgararéttar.

823. mál
[15:44]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Að venju bárust fjölmargar umsóknir um ríkisborgararétt til innanríkisráðuneytisins og allsherjar- og menntamálanefndar. Þær voru teknar til ítarlegrar skoðunar og vil ég nota tækifærið og þakka kærlega undirnefnd þeirri sem fer með það mál í þingnefndinni og þeim þingmönnum sem þar unnu mikið og gott starf. Hér er töluverður hópur og stærri en oft áður sem er við það að fá íslenskan ríkisborgararétt og tel ég það afar jákvætt enda viðhorfið til þess mjög jákvætt í nefndinni. Allir þeir sem uppfylla skilyrði og mögulega geta fengið ríkisborgararétt skulu fá hann.

Ég óska þessum nýju Íslendingum innilega til hamingju með ríkisborgararéttinn sem verður samþykktur innan tíðar og þakka nefndinni fyrir góð störf við þær mörgu umsóknir sem bárust og lágu fyrir.