141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina þeirri hugmynd til forseta og forsætisnefndar, og mun taka þá tillögu upp í nefndinni, að talsmenn hverrar nefndar fái við þessa umræðu hér tíma til að gefa almenna yfirlýsingu um ráðuneytið og fjármuni sem til þess er varið áður en fyrirspurnatími hefst. Þannig held ég að við munum ná betur utan um efnið þannig að hægt sé að fara almennt yfir forsendur fjárlaganna gagnvart ráðuneytinu og síðan sé hægt að spyrja ráðherra út í einstaka liði.

Jafnframt tel ég að sá tími sem ráðherra er skammtaður, þ.e. sex mínútur til að fara yfir sitt ráðuneyti í upphafi, sé of knappur. Eins og hæstv. forseti tók fram áðan erum við með þetta allt saman í þróun en ég tel að nú þegar, þrátt fyrir að við séum bara búin með eitt ráðuneyti og annað sé að sigla af stað, séum við búin að átta okkur á að þetta er það sem við þurfum að bæta við.