141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:10]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Því miður var þetta kannski ekki svar við því sem ég var að spyrja um. Var haft samráð við sérstakan saksóknara um það að á næsta ári mundi embættið ekki þurfa á þessum fjárveitingum að halda, þ.e. er í lagi, og samþykkir hann það, að hægt sé að taka frá honum 500 milljónir á næsta ári án þess að það hafi áhrif á framgang mála hjá embættinu? Ef þetta byggir á þessum gömlu upprunalegu áætlunum virðist manni í fljótu bragði að menn séu komnir af stað út í einhver vandræði með því að mál klárist ekki vegna fjárskorts. En með hvaða hætti hefur samráðið verið? Hvað eru þær áætlanir gamlar sem gera ráð fyrir niðurskurði upp á 800 milljónir á næstu tveimur árum? Ég mundi mjög gjarnan vilja fá svör við þessu.

Mig langar svo að bæta við það sem hv. þm. Róbert Marshall nefndi hér um persónukjör, það snýr nú kannski ekki að fjárlagafrumvarpinu sem slíku. En ég velti því fyrir mér hvort ráðuneytið muni nýta þá þekkingu og þá ferla sem verið er að byggja upp varðandi persónukjör í sveitarstjórnarkosningum til að koma fram með frumvarp um persónukjör í alþingiskosningum í framhaldi af því. Það er næsta stóra mikilvæga skrefi í lýðræðisátt.