141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta eru mikilvæg skref í lýðræðisátt — annars vegar hinn rafræni þáttur og einnig hinn að kjósandinn hafi meiri áhrif á uppröðun á lista en verið hefur. Það fyrirkomulag sem við höfum horft til í þessu starfi er norska aðferðin. Við höfum tekið eitthvað úr henni og annað sem hefur komið upp í samstarfi í óformlegri vinnunefnd sveitarfélaganna og ráðuneytisins. Síðan er mjög mikilvægt að koma þessu máli inn í þingið þar sem þingnefndir geta lagst yfir það líka. Ég sé fyrir mér að þarna væri kominn grunnur að fyrirkomulagi sem við gætum líka notað í alþingiskosningum. Það hefði verið betra að við hefðum verið fyrr á ferðinni með þetta mál, það er alveg rétt. En ég vonast til þess að geta komið með frumvarpið mjög fljótlega inn í þingið þannig að þingið geti líka lagst yfir þetta mál.

Varðandi sérstakan saksóknara leyfi ég mér að fullvissa þingið um að þetta er í góðri sátt við embættið. Þetta er reyndar unnið samkvæmt hans áætlunum, sérstaks saksóknara. Áætlunin um framgangsmátann og hraðann við rannsóknir var nýlega endurskoðuð. Í samræmi við niðurstöðu þeirrar endurskoðunar eru þessar tillögur í fjárlagafrumvarpinu framsettar. Ég held að ég geti fullyrt að svo hafi verið.