141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:29]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra kærlega fyrir þessa afdráttarlausu yfirlýsingu sem ég tel að hafi verið mjög þarft að fá fram í eitt skipti fyrir öll. Ég fagna auðvitað líka þeirri áherslu sem ráðherrann leggur, og er sammála mér og okkur þingmönnum Norðvesturkjördæmis, að Vestfirðir þurfi að vera í forgangi varðandi samgöngubætur núna á allra næstu árum. Það er auðvitað grunnforsenda að ljúka við grunnnet samgöngukerfisins í landinu áður en farið er að huga að endurbótum annars ágætra samgangna á einstöku stöðum.

Ráðherrann ræddi ekki og svaraði ekki spurningu minni, vannst ábyggilega ekki tími til að svara spurningu minni um hvað væri fyrirsjáanlegt varðandi leiðarval við lagningu vegar á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem deilan hefur verið hvað hörðust í Gufudalssveit. Krafa íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum hefur verið sú að fá öruggan láglendisveg. Þó að deilan hafi verið hörð um það hvort sá vegur ætti að liggja um Teigsskóg og fallinn sé hæstaréttardómur sem hefur komið því máli á byrjunarreit, þá eru fleiri möguleikar í þeirri stöðu. Ég þykist vita að íbúar á Vestfjörðum leggi þyngri áherslu á að fá öruggan láglendisveg heldur en að hengja sig í það hvar hann skuli vera eða hvaða bókstafsheiti hann hljóti á teikniborði arkitekta og skipulagsfræðinga. Ég vil inna ráðherrann nánar eftir þessu.