141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:05]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í þeim fjárlögum sem hér eru lögð fram er ráðuneyti hæstv. ráðherra Svandísar Svavarsdóttur kallað umhverfisráðuneyti. Það er eðlilegt því að þau eru undirbúin og prentuð með nokkrum fyrirvara en það sem síðan hefur gerst er að umhverfisráðuneytið er ekki lengur til en í þess stað er komið nýtt ráðuneyti sem heitir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Mér þykir við hæfi í fyrsta sinn sem umhverfis- og auðlindaráðherra kemur fram á þingi sem slíkur að fara þó stutt sé aðeins yfir þetta nýja ráðuneyti og vil í byrjun óska ráðherranum og okkur öllum til hamingju með þann áfanga sem ég tel að þetta sé í framþróun stjórnsýslunnar annars vegar en hins vegar á þeim nýju tímum sem vonandi eru að renna upp með aukinni áherslu á umhverfismál og auðlindastjórnun í þágu almennings og vistrænna viðhorfa.

Að því sögðu verð ég að lýsa því yfir að skrefið er nokkuð stutt. Þetta yfirgripsmikla og mikilúðlega annað heiti á ráðuneytinu, auðlindaráðuneyti — þess sér lítinn stað í ráðuneytinu sjálfu. Það er hægt að fletta fram og aftur í fjárlagafrumvarpinu án þess að verða var við miklar breytingar á ráðuneytinu. Það er sú spurning sem ég hef til ráðherrans í fyrri samskiptum okkar í þessum nýja þinglið: Hvar kemur það fram að umhverfisráðuneytið sé orðið annað og aukið?

Það er vissa mín að það er mikill galli að menn skyldu ekki hafa til þess hugrekki eða djörfung að gera þetta að almennilegu auðlindaráðuneyti. Hið mikla tákn í því efni hefði verið að færa Hafrannsóknastofnun eða a.m.k. nokkurn hluta hennar undir umhverfisráðuneytið þannig að ljóst væri að sú mikilvæga auðlind lyti stjórn sem byggðist á umhugsun um sjálfbærni og framtíðarhagsmuni en væri ekki stjórnað úr hinu annars ágæta atvinnuvegaráðuneyti sem komið er á fót. Helsti ávinningurinn þegar farið er yfir stofnanapartinn af þessari breytingu — ég veit að ráðuneytið sjálft hefur verið endurskipulagt og mér líst vel á það — er sá að undir ráðuneytið er komin ný stofnun sem heitir Veiðimálastofnun, þ.e. ný stofnun í skilningi ráðuneytis. Þetta er heldur aumt. Í því er svo sem ekkert að gera að þessu sinni nema vona að þetta vaxi og þroskist og auðlindaráðuneytið verði að lokum til þó að það taki nokkur ár eða jafnvel nokkur kjörtímabil að skapa það.