141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:44]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og óska þjóðinni til hamingju með umhverfis- og auðlindaráðuneyti í Stjórnarráði Íslands. Það var sannarlega tími til kominn og ég veit að hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir hefur mikinn metnað fyrir hönd þessa málaflokks og þessa nýja ráðuneytis sem ég vona svo sannarlega að gangi eftir.

Erindi mitt í þennan ræðustól er spurning sem varðar ofanflóðasjóð sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi áðan. Þar eru á frosti tæpir 10 milljarðar kr. í Seðlabankanum. Nettóeign sjóðsins um síðustu áramót er bókfærð sem 9,9 milljarðar kr. Af þeim er allt bundið nema 1,4 milljarðar. Í fjárlögum sem nú er verið að ræða, eða frumvarpi fyrir árið 2013, er reiknað með að sjóðurinn fái 846 millj. kr. af ríkistekjum en síðan fái hann 418 millj. kr. í vexti af þessum sömu tæplega 10 milljörðum kr. Allt er þetta eflaust gott og rétt bókhald. Handbært fé er um 8 milljarðar kr. Á hverju ári er innheimt sérstakt gjald, ofanflóðagjald, 0,5% á allar brunatryggðar húseignir. Það eru um 1.800 millj. kr. á ári. Á þessu ári er fyrirhugað að framkvæma fyrir tæpar 1.700 millj. kr. og á árinu 2013, samkvæmt frumvarpinu, fyrir tæplega 1.900 millj. kr. Það gengur sem sagt ekki á þennan höfuðstól.

Frú forseti. Það gengur sem betur fer vel á verkefnin. Verkefni þessa sjóðs eru mikilvæg, að verjast snjóflóðum og skriðuföllum með fyrirbyggjandi aðgerðum. Það hlutverk hefur verið rækt með miklum sóma og árangri í byggðarlögum sem eru á snjóflóðasvæðum og til að verjast skriðuföllum. Það hefur lengi verið mikið áhugamál mitt að inn í þennan sjóð yrðu tekin sjóflóð, flóð og flóðavarnir. Minnumst bara þess sem gerðist á Stokkseyri og Eyrarbakka á sínum tíma. Þá hefði það verið vel nothæft.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig það er að þurfa að skera niður allar framkvæmdir endalaust en eiga svo fé í frosti sem ber svo mikla vexti á ári hverju.