141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina um málaflokkinn. Hann flutti sitt mál af miklum eldmóð eins og hans er von og vísa.

Það er eitt sem mig langar að nefna við hæstv. ráðherra, en hann byrjaði á því í ræðu sinni að vitna til orða hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem talaði hér áðan, að ég geng út frá því sem vísu hér eftir sem hingað til að hæstv. ráðherra muni aðstoða mig ásamt fleirum við að leiðrétta þann halla sem er eina ferðina enn á þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Ég veit að hann stendur nærri hjarta hæstv. ráðherra.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt. Hér kemur fram að mesta útgjaldaaukningin sé vegna þróunaraðstoðar út af þeirri ályktun sem var samþykkt í þinginu, en síðan kemur þar til viðbótar, sem snýr að rekstrinum sem slíkum í ráðuneytinu. Það er 50 millj. kr. framlag vegna aðildarviðræðna um Evrópusambandið. Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki þannig að viðkomandi fagráðuneyti séu líka að færa kostnað við þetta. Það er kostnaður við nefndina og samningana, en síðan er væntanlega færður kostnaður í öðrum ráðuneytum sem snýr að því sem þau þurfa að sinna í aðildarviðræðunum.

Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi þeirrar umræðu sem varð fyrir einu og hálfu ári eða svo um sendiherrabústaði, um heimild í 6. gr. fjárlaga til að kaupa nýjan sendiherrabústað í New York. Reyndar er mér mjög illa við þessar opnu heimildir í 6. gr. Það sem býr að baki þar eru heimildir Alþingis upp á 320 millj. kr. til ráðstöfunar á þennan lið. Hins vegar eru þar inni heimildir opnar upp á tugi milljarða. Mér er mjög illa við þennan lið. Hæstv. ráðherra sagði áðan þegar hann vitnaði til IPA-styrkjanna, að hann vildi spara mönnum sporin. Ég geri mér grein fyrir því að núna er væntanlega verið að leigja aðstöðu fyrir sendiherrann í New York og ég mundi vilja óska eftir því við hæstv. ráðherra þegar þessi liður kemur til meðferðar í fjárlaganefnd að við í nefndinni fengjum gögn um það hver er kostnaður við leiguna, hver væri hugsanlegur kostnaður við kaup og þar fram eftir götunum, einmitt til að spara okkur sporin og gera umræðuna markvissari og betri svo hún þurfi ekki að einkennast af einhverjum upphrópunum. Það liggi þá fyrir, þegar Alþingi samþykkir að hafa þennan fjárlagalið inni, þ.e. þessa opnu heimild í 6. gr., að við getum fjallað efnislega um málið og með rökum en ekki upphópunum, eins og við lentum því miður of oft í þegar við ræddum þetta mál fyrir rúmu ári.