141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Í upphafi máls síns skoraði hv. þingmaður á mig að gerast liðsmaður hans í baráttunni við að styrkja þjóðgarðinn á Snæfellsnesi. Eins og hv. þingmaður gat um er mér málið skylt og mér þykir vænt um þann þjóðgarð. Hv. þingmaður veit líka að ég hef aldrei dregið af mér í því máli enda tel ég að sú ákvörðun sem leiddi til stofnunar hans — vissulega með dyggum stuðningi stuðningsmanns hans úr Sjálfstæðisflokknum — hafi verið mjög farsæl.

Hvað varðar þær spurningar aðrar sem lúta að mínum efnisflokki er rétt að geta þess í fyrsta lagi að 50 millj. kr. framlagið sem óskað er eftir til að hrinda áfram samningaferlinu lýtur aðeins að aðalsamninganefndinni og ferðalögum sem henni tengjast. En ég vil samt taka fram, og það er rétt hjá hv. þingmanni, að síðan fellur ákveðinn kostnaður til hjá öðrum ráðuneytum. Ég rifja það upp að sumir hv. þingmenn töldu að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið þáverandi væri undirlagt í starfi fyrir aðildarferlið. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson lagði fram formlega fyrirspurn um það. Svarið frá þáverandi ráðherra var að það væri hálfur starfsmaður. Það var ekki meira en það. Við höfum af þeim fjármunum sem við höfum fengið tvö síðustu ár líka greitt ákveðinn kostnað sem tengist ferðalögum og fleiru fyrir hin ráðuneytin en ekki vegna vinnu starfsmanna.

Ég lofa hv. þingmanni að hann muni fá öll þau gögn um sendiherrabústaðina sem hann óskar eftir, svo sem um kostnað við bústaðinn í New York og leiguna. Þá rifja ég það upp að við áttum samtöl um kaup á sendiherrabústað í Lundúnum fyrir sennilega tveimur árum. Ég var þá þeirrar skoðunar, eins og hv. þingmaður man kannski, að það væri betra að leigja bústað en kaupa. En mér var sýnt fram á það með tölulegum rökum sem ég hygg að hafi líka verið lögð fyrir hv. nefndarmenn í fjárlaganefnd … (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Klukkan í borðinu er biluð en hæstv. utanríkisráðherra hafði tvær mínútur og sá tími er liðinn. Forseti gefur hæstv. ráðherra tækifæri til þess að ljúka máli sínu snarlega.)

Ég fer eftir klukkunni og reikna út ræður mínar í huganum út frá því, þannig að ég á eftir að svara töluverðu um þetta. Við þurfum þá að ræða þetta betur. En ég er þeirrar skoðunar að það sé mismunandi eftir löndum hvort betra sé að kaupa eða leigja þegar horft er til langs tíma. Við verðum bara að gera það sem er réttast. Held ég þá að ég sé búinn að svara obbanum af spurningum hv. þingmanns en því sem ég hef ekki svarað verður hann að skrifa á reikning bilaðrar klukku, ekki bilaðs ráðherra.