141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

stjórnarskipunarlög.

19. mál
[15:35]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Frumvarpið gengur út á að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um breytingar á stjórnarskránni. Þetta frumvarp hefur áður verið lagt fram í tvígang en hlaut ekki afgreiðslu og er því lagt fram með nokkrum breytingum.

Það er skoðun flutningsmanna að þegar stjórnarskrá er breytt eigi það að njóta mikillar samstöðu meðal alþingismanna og ekki síður meðal þjóðarinnar. Það er líka skoðun flutningsmanna að þjóðin eigi að greiða atkvæði um breytingar á stjórnarskrá sinni beint og bindandi. Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá er þessu ekki þannig farið. Um leið og Alþingi hefur með einföldum meiri hluta samþykkt breytingar á stjórnarskrá, t.d. eins og þessa, skal um leið rjúfa þing. Þá eru haldnar almennar kosningar. Í almennum kosningum bjóða flokkar og þingmenn sig fram til að stjórna landinu næstu fjögur árin, næsta kjörtímabil og öll umræðan snýst um hvað menn ætla að gera fyrir heimilin, fyrir atvinnulífið og fyrirtækin o.s.frv., en ekki um stjórnarskrána. Síðan þegar nýtt þing kemur saman greiðir það atkvæði með stjórnarskrárbreytingunni. Þá fer hver þingmaður alfarið að sannfæringu sinni samkvæmt núgildandi lögum um stjórnarskrá. Í rauninni greiðir þjóðin aldrei atkvæði um stjórnarskrána.

Ég gleymdi að geta þess að meðflutningsmenn mínir að málinu eru 16 hv. þingmenn. Það vill þannig til, sem er athyglisvert, að það er einn mánuður þangað til þjóðin gengur til atkvæða um nýja stjórnarskrá sem stjórnlagaráð hefur lagt fram og sú atkvæðagreiðsla er ekki bindandi, hún er í rauninni skoðanakönnun. Mér finnst persónulega verið að setja niður stjórnarskrána með því að greiða atkvæði um hana í eins konar skoðanakönnun.

Ég hef lengi talið, frú forseti, ég vil undirstrika það, að það þurfi að breyta stjórnarskránni í nokkuð veigamiklum atriðum, sérstaklega að því er varðar ákvæðin um forseta Íslands sem allt að því segja ósatt. Það stendur til dæmis í 21. gr. að forseti geri samninga við önnur ríki. Hann getur rofið Alþingi, o.s.frv. Hann virðist hafa mikið vald. En síðan kemur 13. gr. og þar er þetta vald allt tekið burtu því þar stendur, með leyfi frú forseta: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“ Það er mjög athyglisvert og margar spurningar vakna út af þessari grein sem mér finnst að þurfi að skoða.

Þær tillögur sem hafa komið fram frá stjórnlagaráði eru um margt mjög athyglisverðar. Ég hef nefnt nokkur dæmi, í vor fór fram mikil umræða um einmitt það atriði og um tillögur stjórnlagaráðs. Reyndar var þar eingöngu verið að ræða um ferlið, það er dálítið athyglisvert, það var rætt um ferlið en ekki efnið. Það hefur í raun ekki farið fram umræða á Alþingi um efnið og með ólíkindum að kjósendum sé ætlað að greiða atkvæði um stjórnarskrá sem ekki hefur verið rædd efnislega á Alþingi. Ég leyfði mér reyndar, frú forseti, að gera það, að fara í efnislega umræðu um stjórnarskrána af því að ég tel að það sé ekki hægt að ræða ferlið nema menn ræði efnið líka. Ég talaði nokkuð mikið, enda er ég búinn að stúdera tillögur stjórnlagaráðs mjög mikið. Ég eyddi öllu jólaleyfinu og lunganum af janúar í að fara í gegnum allar greinarnar, hverja einustu — þetta eru um 300 málsgreinar — og gera við þær athugasemdir, hverja einustu. Ég sendi þær inn. Svo heyri ég úti í bæ að sjálfstæðismenn hafi ekki rætt efnislega um tillögur stjórnlagaráðs. Það þykir mér dálítið sárt að heyra.

Margt í tillögum stjórnlagaráðs er gott, annað mjög slæmt. Sumt er hægt að laga, til dæmis það að í 80 greinum minnir mig er vísað til laga, eins og þar sem sagt er að réttindi fjölmiðla skuli tryggð með lögum. Hvað gerist ef Alþingi setur engin lög? Hafa þá fjölmiðlar engin réttindi? Og hvað gerist ef Alþingi setur lög sem ekki eru í samræmi við það að tryggja frelsi fjölmiðla?

Þarna er vald stjórnarskrárinnar framselt til Alþingis. Það finnst mér óhæfa vegna þess að stjórnarskráin á að vera undirstaða ríkisins, bæði löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds. Alþingi á ekki að þurfa að fylla út í stjórnarskrána. Þetta er ekki mjög erfitt að laga og ég gerði tillögu um breytingu á nánast hverri einustu af þessum 80 greinum.

Það er margt annað gott, t.d. hugmyndin um Lögréttu, mjög skemmtileg hugsun en reyndar allt of takmörkuð hjá stjórnlagaráði. Ég geri ráð fyrir því að einhverjir hv. þingmenn hafi lesið drög stjórnlagaráðs og þess vegna tala ég um þetta svona, sérstaklega vegna þess að þjóðin á að greiða atkvæði um þetta eftir 30 daga. Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs á Lögrétta að vera skipuð af Alþingi og hún á að fara yfir lagafrumvörp á Alþingi að beiðni þingmanna. Þetta finnst mér allt of þröngt, í fyrsta lagi að skipa einhverja einstaklinga í Lögréttu án kröfu um faglega skipun, þeir þurfa t.d. ekki að vera lögfræðingar. Ég hefði talið að þetta mætti útfæra miklu betur með því að fullskipaður Hæstiréttur sé Lögrétta. Hann fari yfir það að beiðni ákveðins fjölda þingmanna hvort frumvörp standist stjórnarskrá. Hann fari líka yfir mál sem koma upp í gegnum dómskerfið þar sem því er haldið fram að einhver lög standist ekki stjórnarskrá. Þá geti Hæstiréttur komið allur saman, myndað Lögréttu og tekið ákvörðun um það hvort þessi lög sem ágreiningur er um, standist stjórnarskrá. Þannig yrði Lögrétta afskaplega góð og falleg niðurstaða. Mér finnst að það þurfi að taka það góða úr tillögum stjórnlagaráðs og laga það sem er miður. Svo eru þarna greinar sem eru hreinlega skaðlegar að mínu mati. Það er líka verið að þenja út stjórnarskrána og setja umboðsmann Alþingis og ýmsar stofnanir inn í hana. Mér finnst það alger óþarfi og svo er meira að segja talað um dýravernd í stjórnarskrá sem á að vernda fólk. Mér finnst því verið að þynna út stjórnarskrána.

Þetta var um tillögurnar frá stjórnlagaráði og um þær á að greiða atkvæði eftir mánuð. Nú skulum við segja að þær verði samþykktar og Alþingi samþykki svo tillögurnar, náttúrlega eitthvað breyttar — sem er ákveðin vanvirðing við kjósendur, að þeir eigi að greiða atkvæði um eitthvað sem verður svo breytt. En gefum okkur að það verði eitthvað samþykkt sem byggir á tillögum stjórnlagaráðs næsta vor og um leið verði þingið rofið og kosið til Alþingis eins og ætlunin er.

Þá mun það gerast að þjóðin mun kjósa þingmenn og flokka aðallega eftir efnahagsstefnu o.s.frv. eins og ég gat um áðan, en ekki vegna stjórnarskrárinnar. Nýtt þing kemur saman með nýjum þingmönnum og þá vill svo til að samkvæmt núgildandi stjórnarskrá ber þingmönnum eingöngu að fara eftir sannfæringu sinni og ekki eftir tilmælum frá kjósendum sínum. Það stendur í stjórnarskránni. Nýir þingmenn og þeir sem eru endurkosnir þurfa að sverja eið að henni. Þeir munu því bara þurfa að fara að sannfæringu sinni en ekki eftir því hvað skoðanakönnunin, sem fer fram eftir mánuð, hefur leitt í ljós, né hvað kemur fram í kosningum. Þeir gætu fellt eða sleppt því að samþykkja stjórnarskrárbreytinguna af því að þeir hafa ekki sannfæringu fyrir henni. Með núverandi fyrirkomulagi mun þjóðin aldrei greiða atkvæði um stjórnarskrá sína þannig að bindandi sé. Það þykir mér slæmt. Þessi tillaga lagar einmitt þann þátt.

Nú gætu menn farið þá leið að ef þeir vilja gera breytingar á stjórnarskránni og meira að segja kollvarpa henni, eins og tillaga stjórnlagaráðs gerir ráð fyrir, að samþykkja þetta frumvarp mitt sem síðasta mál þessa þings. Svo yrði kosið nýtt þing og það mundi samþykkja þessa tillögu aftur. Þá getur það þing sent tillögurnar sem stjórnlagaráð bjó til til þjóðarinnar í bindandi atkvæðagreiðslu ef góð samstaða myndast um það. Þessi tillaga gengur út á að það sé breið samstaða. Þetta frumvarp leysir þann vanda sem við búum við í dag með núgildandi stjórnarskrá, að þjóðin greiðir aldrei atkvæði um stjórnarskrána sjálfa. Strax að loknum næstu kosningum, tveimur, þremur mánuðum seinna, gætu menn boðað til kosninga um nýja stjórnarskrá ef 40 þingmenn samþykkja það, það þarf mikinn aukinn þingmeirihluta. Án þess að rjúfa þing. Og ef þjóðinni sýnist svo, ef helmingur kjósenda, ekki bara þeir sem mæta á kjörstað heldur helmingur kosningarbærra manna, greiðir atkvæði með tillögunni, er hún orðin stjórnarskrá. Þá hefur þjóðin greitt atkvæði um stjórnarskrána sína og það tel ég vera mjög brýnt. Þessi tillaga leysir þennan vanda og ég held að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þurfi að skoða þetta mál mjög vandlega, frú forseti, hvort það sé ekki lausnin á því ferli, að þjóðin sé ekki látin kjósa um stjórnarskrána upp á punt, heldur greiði hún í alvöru um hana atkvæði og bindandi.

Flutningsmenn hafa gert nokkrar breytingar frá fyrri frumvörpum. Það er búið að lækka þröskuldana nokkuð, úr 43 þingmönnum niður í 40. Það var vegna þess að menn töldu að það væri mjög erfitt að ná í fyrsta lagi 43 þingmönnum saman á þingfund og í öðru lagi yrðu þeir að vera sammála breytingunni. Svo er búið að lækka þröskuldinn hjá þjóðinni úr 60% allra kosningarbærra manna niður í 50%, þannig að að minnsta kosti helmingur þjóðarinnar standi á bak við nýja stjórnarskrá. Það var fallist á þau rök að fyrri regla um 60% væri nánast óframkvæmanleg. Það væri mjög sjaldgæft að svo mikil kosningaþátttaka næðist og svo mikill einhugur hjá þjóðinni. En auðvitað á að vera mikil sátt um stjórnarskrána, menn eiga ekki að samþykkja stjórnarskrá nema um hana sé rík sátt.

Ég hef nefnt nokkur atriði sem eru gallar við núgildandi stjórnarskrá. Það er eitt atriði sem er mjög mikill galli, frú forseti. Hæstiréttur Íslands er hvergi nefndur í stjórnarskránni. Það finnst mér vera mjög slæmt vegna þess að Hæstiréttur Íslands er lokaniðurstaða í dómsmálum og dómskerfið er ein af þremur stoðum ríkisvaldsins.

Ég vona að þetta mál fái góða umfjöllun og verði að lokinni umræðu sent til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.