141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

almenn hegningarlög.

130. mál
[16:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er varða mútubrot. Frumvarpið er samið í refsiréttarnefnd vegna fyrirhugaðrar fullgildingar á viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins á sviði refsiréttar um spillingu frá 15. maí 2003.

Við gerð frumvarpsins komu einnig til skoðunar tilmæli samtaka ríkja gegn spillingu, GRECO sem svo er nefnt, sem fram komu í skýrslu um framkvæmd Íslands á spillingarsamningi Evrópuráðsins, sem og tilmæli vinnuhóps Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD, um mútur í alþjóðlegum viðskiptum sem fram komu í skýrslu um framkvæmd Íslands á samningi um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum.

Ísland fullgilti spillingarsamning Evrópuráðsins í febrúar 2004 og öðlaðist hann gildi hvað Ísland varðar í júní sama ár. Viðbótarbókun við samninginn sem var undirrituð af Íslandi 15. maí 2003, og sem nú stendur til að fullgilda, leggur þá skyldu á aðildarríkin að tryggja að gerðarmenn og kviðdómendur, jafnt innlendir sem erlendir, falli undir ákvæði refsilaga að því er varðar mútubrot opinberra starfsmanna, þ.e. jafnt ákvæði sem varða mútugreiðslur og mútuþægni.

Samtök ríkja gegn spillingu, GRECO, hafa að markmiði að gera ríki Evrópuráðsins betur í stakk búin til þess að berjast gegn spillingu. Samtökin fylgjast með framkvæmd aðildarríkja á spillingarsamningnum.

Árið 2008 samþykkti GRECO tvær skýrslur um Ísland og var höfð hliðsjón af tilmælum ríkjahópsins við gerð frumvarpsins. Meðal þeirra tilmæla sem beint var til Íslands var að Ísland tryggði að ákvæði hegningarlaga um mútur og áhrifakaup næðu einnig til alþingismanna og fulltrúa erlendra fulltrúaþinga sem hefðu stjórnsýslu með höndum sem og til erlendra gerðarmanna og kviðdómenda að þyngja refsingar fyrir mútubrot í almennri atvinnustarfsemi og skoða hvort þyngja ætti refsingar fyrir mútugreiðslur til opinberra starfsmanna.

Á vegum Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar OECD starfar vinnuhópur um mútur í alþjóðlegum viðskiptum sem fylgist með framkvæmd aðildarríkja á samningi um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum sem Ísland fullgilti í ágúst 1998. Vinnuhópurinn samþykkti skýrslu um Ísland árið 2010. Meðal þeirra tilmæla sem til Íslands var beint var að tryggja að ákvæði almennra hegningarlaga um mútur tæki til mútugreiðslna til opinberra starfsmanna, starfa fyrir fyrirtæki sem eru í opinberri eigu eða stjórnað af hálfu hins opinbera, að þyngja refsingu fyrir brot vegna mútugreiðslna og að taka til skoðunar að heimila jafnframt beitingu annars konar viðurlaga fyrir lögaðila líkt og heimil eru fyrir einstaklinga, til að mynda sviptingu réttinda.

Með frumvarpinu er því lagt til að sérstaklega verði tekið fram að alþingismenn og gerðarmenn í gerðardómi falli undir ákvæði laganna um mútugreiðslur og mútuþágu. Þá er lagt til að refsiábyrgð vegna mútugreiðslna og mútuþágu erlendra opinberra starfsmanna taki jafnframt til erlendra gerðarmanna, erlendra kviðdómenda og manna sem sæti eiga í erlendum fulltrúaþingum sem hafa stjórnsýslu með höndum.

Lagt er til að refsihámark fyrir brot vegna mútugreiðslna verði hækkað í fjögur ár. Þá verði stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja sem eru að hluta eða í heild í opinberri eigu felldir undir gildissvið ákvæðis laganna sem fjallar um mútubrot í almennri atvinnustarfsemi og lagt til að refsihámark fyrir brot gegn ákvæðinu hækki í þrjú ár.

Þá er lagt til í samræmi við tilmæli vinnuhóps OECD að heimilt verði að svipta lögaðila starfsréttindum, svo sem greinir í 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga sem nú er bundið við einstaklinga.

Í 18. tölulið 6. gr. almennra hegningarlaga er mælt fyrir um að fyrir háttsemi sem greinir í spillingarsamningnum skuli refsað eftir íslenskum hegningarlögum enda þótt brotið hafi verið framið utan íslenska ríkisins og án tillits til þess hver hefur verið að því valdur.

Lagt er til að viðbótarbókuninni verði einnig bætt við upptalningu 6. gr. þar sem 1. mgr. 8. gr. hennar segir að samningsaðilar skuli í samskiptum sín á milli líta svo á að efnisákvæði bókunarinnar séu viðbótarákvæði við samninginn.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir atriðum frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.