141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[15:54]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Allt fer þetta nú einhvern veginn. Það sem mér finnst mikilvægast er að þjóðin fái upplýsingar á öllum stigum málsins og fái að ráða niðurstöðunni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er von til þess að það verði jafnvel bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Við sjáum að málinu verður ekki lokið fyrir kosningar. Mörg okkar hafa mikinn áhuga á því að hér taki gildi ný stjórnarskrá sem býður þá upp á þann kost að þjóðaratkvæðagreiðslur geti verið bindandi.

Ég held að það sé ekkert annað í boði en að klára ferlið. Það hófst með ályktun frá Alþingi og ályktunum frá Alþingi ber að fylgja eftir. Við getum ekki stungið þeim ofan í skúffu ef okkur sýnist svo og gildir þá einu hvort menn eru ráðherrar eða ekki.

Að mínu viti er ekki í boði að reyna að flýta aðildarviðræðunum eða ákveða dagsetningu því að maður stillir sjálfum sér ekki upp í horn í samningaviðræðum. Þessar viðræður verða einfaldlega að fá þann tíma sem þær þurfa. Ég tel farsælast að klára þær en ef þjóðin ákveður sjálf — t.d. eftir að ný stjórnarskrá hefur tekið gildi, með því þjóðarfrumkvæði sem þar er boðið upp á — að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli viðræðum áfram þá verður það niðurstaða þjóðarinnar og við lútum henni.

Þetta varð að mínu viti óvænt kosningamál fyrir síðustu kosningar. Ríflegur meiri hluti var fyrir því á þinginu og við verðum að lúta vilja þings og þjóðar og halda þessu áfram.