141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

152. mál
[17:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni kærlega fyrir þessa tillögu til þingsályktunar. Það er hárrétt hjá honum að þjóðfélagið hefur tekið gífurlegum breytingum síðustu hálfu öldina, nú horfum við upp á allt annað þjóðfélag. Áður var þetta meira staðlað. Það voru hjón með tvö börn, hund og jafnvel bíl á þeim tíma, formið var mjög fast og þjóðskráin ber þess merki. Hún breytist ekki með miklum látum. En þjóðfélagið hefur breyst og hér er tekið á litlum anga á þeim breytingum. Þær eru nefnilega miklu víðari. Við glímum nú við fíkniefnavanda sem var óþekktur áður fyrr. Við glímum við alls konar lausung, við glímum við atvinnuleysi, mjög hraða skilnaði o.s.frv. Við glímum við það að afi og amma sjá um börnin, nokkuð sem var reyndar áður til en foreldrarnir fá barnalífeyri og allt slíkt vegna þess að barnið getur ekki haft búsetu þar sem það býr raunverulega.

Ég vil ekki tefja þetta mál en vildi gjarnan að hv. nefnd sem fær það til skoðunar mundi víkka þetta pínulítið út og skoða hvort ekki hafi fleira breyst en bara búseta barna. Það er nefnilega ótrúlega margt sem hefur breyst í þjóðfélaginu sem þarf að taka tillit til. Samt er Tryggingastofnun, bótakerfið, skatturinn og barnavernd og allt saman rígneglt niður í eldgamalt kerfi sem byggir á því munstri sem ég gat um áðan; hjón með tvö börn o.s.frv.

Ég er mjög hlynntur þessari tillögu og ég vil gjarnan að hún fái góða umræðu í nefndinni án þess þó að tefja hana og jafnvel að menn mundu útvíkka starfssvið nefndarinnar sem hér yrði skipuð.