141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

staða þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára.

[14:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það hefur margt fróðlegt komið fram við þessa umræðu. Þannig vissi ég ekki fyrr en nú að Framsóknarflokkurinn hefði bjargað siðgæðinu þegar Samfylking og Sjálfstæðisflokkurinn höfðu ætlað að nema það brott úr lögum. (Gripið fram í: Alltaf gott að ... ) Alltaf gott að fá fram nýjar upplýsingar í sölum Alþingis.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson og frummælandi við þessa umræðu, Birgir Ármannsson, spyrja hvort til standi að bæta kirkjunni þá skerðingu sem hún hefur sætt. Þá legg ég áherslu á að (Gripið fram í.) eftir að — verðbætur. Reyndar skiptir máli hvaða hugtök við notum hér, vegna þess að þegar sóknargjöldin fara inn í nýjan farveg með lagabreytingu 1987 er hugsunin sú að þau verði uppfærð hverju sinni samkvæmt þróun tekjuskattstofns en ekki eftir verðbótum sem slíkum. Á undanförnum árum hafa staðið ákveðnar deilur um hvaða viðmiðunar eigi að horfa til þarna.

Síðan gerist það í hruninu að kirkjan sætir skerðingum eins og aðrar stofnanir og sóknargjöldin að sama skapi en sóknargjöldin njóta síðan ekki verðuppfærslu hvort sem það er samkvæmt verðbótum, vísitölu eða tekjuskattstofni sem hefur reyndar ekki orðið ofan á. Um það standa málin.

Varðandi kirkjujarðasamninginn frá 1997 er ríkið reiðubúið að setjast að samningaborði um að taka þann samning upp og ræða hann og við munum eiga viðræðufundi með kirkjunni um það efni. (Gripið fram í.) Við erum að ræða hvernig við ætlum að fara í þann farveg sem báðum aðilum hugnast. Við skulum ekki gleyma því að það sama á náttúrlega við um kirkjuna (Forseti hringir.) og aðrar stofnanir í samfélaginu, Landspítalann, heilbrigðisþjónustuna og skólana sem hafa orðið af peningum vegna hrunsins.

Spurningin er hins vegar sú (Forseti hringir.) á hvern hátt við færum þennan samning inn í framtíðina. Við erum tilbúin og opin fyrir því að setjast niður með kirkjunni (Forseti hringir.) með það fyrir augum að endurskoða þennan samning.