141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þar sem hann dró fram alvarlega skuldastöðu ríkissjóðs og þá fjármuni sem fara í vaxtagreiðslur og auðvitað er vaxtajöfnuðurinn líka að aukast á milli ára.

Hv. þingmaður hefur margoft haft orð á því að hann vilji endurskoða skuldastýringu ríkissjóðs, hann hefur margoft talað um það í mín eyru, og mig langar að spyrja hann um það sem gerðist í fyrra þegar við fórum í þessa tilraunastarfsemi með útgáfu á 1 milljarðs dollara skuldabréfi. Þá var tekin ákvörðun um það í lok ársins 2011 að draga á Norðurlandalánin, eins og við vitum, síðan var farið að greiða upp sambærilegar upphæðir inn á árið 2012 og því næst gefið út 1 milljarðs dollara skuldabréf með mun meiri vaxtagreiðslum og ekki bara það heldur voru greidd niður skuldabréf sem voru með hagstæðari gjalddaga og vexti, (Forseti hringir.) á árunum 2016–2018. Hvað vill hv. þingmaður segja um þetta?