141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ágæta ræðu. Mig langar að spyrja hvort hann sem hagfræðingur þekki kenningu um samband skattlagningar og skattstofna, þ.e. þegar skattlagningin fer yfir ákveðið mark kunni tekjur ríkissjóðs af viðkomandi skattstofni að minnka, kennd við hagfræðinginn Laffer, og hvort hann fallist á hana og hvort sú stefna ríkisstjórnarinnar að skattleggja atvinnulífið sé ekki röng og sérstaklega að skera svo niður í miklu atvinnuleysi að fólk fari af launaskrá hjá ríkinu yfir á atvinnuleysisbætur sem ríkið kostar líka, hvort það sé ekki röng stefna og hvort það hafi verið mistök af Hreyfingunni að styðja ríkisstjórnina undanfarið. Eins og nú kemur fram í ræðu hv. þingmanns er hann ekki sáttur við fjárlögin og allan þann vaxtakostnað sem hefur fallið til. Var stuðningur Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina mistök?