141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013. Ég ætla að víkja að minnihlutaáliti hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, þar sem hann fjallar um jöfnuð í ríkisfjármálum, bara til að undirstrika það sem fram kemur þar. Það hefur reyndar komið fram í umræðum um málið nú í dag og í lok síðustu viku en þar var fjallað um það markmið sem fjármálaráðherra setti á sínum tíma að ná fram jöfnuði í ríkisfjármálum.

Markmiðið var sett fram árið 2009 en hefur á engan hátt gengið eftir, eins og við sjáum, jafnvel þó að stjórnarliðar og jafnvel ráðherrar tali um það í ræðustól og láti hafa eftir sér í fjölmiðlum að nú sé staðan miklu betri en útlit var fyrir á sínum tíma. Ég ætla að lesa upp úr nefndaráliti hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, með leyfi frú forseta:

„Annar minni hluti hefur bent á að markmið þau sem fjármálaráðherra setti fram í skýrslu sinni um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009 hafa ekki gengið eftir. Þau helstu voru:

a. að frumjöfnuður ríkissjóðs yrði jákvæður á árinu 2011,

b. að heildarjöfnuður ríkissjóðs yrði jákvæður á árinu 2013 og

c. að til lengri tíma litið yrði skuldsetning ríkissjóðs ekki meiri en sem svarar til 60% af vergri landsframleiðslu.“

Síðan er áfram fjallað um málið og þarna segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt Hagtíðindum frá 8. mars 2012, en þau eru rit Hagstofu Íslands, nam landsframleiðsla 2011 1.630 milljörðum kr. Miðað við þær forsendur sem gefnar eru í ritinu má ætla að landsframleiðslan muni nema 1.716 milljörðum kr. í lok 2013. Miðað við upphafleg markmið ætti frumjöfnuður því að nema 147,5 milljörðum kr. í stað 60,4 milljarða kr. eins og kemur fram í frumvarpinu, en það er um helmingur þess árangurs sem upphaflega var gert ráð fyrir. Með því að auka skuldir ríkissjóðs á næsta ári fjarlægist ríkisstjórnin upphafleg markmið sín. Skuldsetning ríkissjóðs nemur tæplega 95% af landsframleiðslu og því er langt í land með að það markmið nái fram að ganga að lækka skuldirnar í 60% af landsframleiðslu.“

En rökin fyrir því að farið er fram með ýmsar hugmyndir og breytingartillögur, sem ég ætla að fara yfir á eftir og komið hafa fram í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, eru m.a. þau að vel hafi tekist til að ná hér jöfnuði í ríkisfjármálum og að Ísland sé komið á lygnan sjó, eins og einhverjir hafa orðað það. En þegar horft er til þeirra áætlana sem gerðar voru á sínum tíma kemur í ljós að það stenst ekki. Er það rakið mjög vel bæði í áliti 2. minni hluta og eins í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar. Það er einmitt þess vegna sem segja má, eins og kemur einhvers staðar fram í nefndarálitum, að þetta sé hálfgert kosningaplagg og að því sé kastað inn í kosningabaráttuna til að reyna að kaupa eitthvert fylgi til baka. Allir sjá að ríkisstjórnin stendur mjög veikt samkvæmt skoðanakönnunum. Hún nýtur ekki stuðnings nema lítils brots þjóðarinnar og þetta er örvæntingarfull aðgerð til að reyna að kaupa eitthvað aftur af töpuðu fylgi.

Þetta er einmitt það sem gagnrýnt hefur verið mjög harkalega í gegnum tíðina, að menn komi fram á síðasta ári kjörtímabils, á kosningaári, og varpi fram svona löguðu, fari hringinn í kringum landið á einhverjum gullvagni og kasti úr honum örlitlum eyri. En það er á engan hátt nóg til að fylgja eftir þeim verkefnum sem talað er um þannig að þetta snýst í rauninni um að gefa einhverjar falsvonir. Talað er um að nota fjármuni sem koma eiga vegna arðgreiðslu úr fjármálastofnunum og annað því um líkt, úr sölu ríkishlutabréfa o.s.frv. þannig að það stenst auðvitað enga skoðun.

Þá hljótum við líka að spyrja okkur að þegar við ræðum þá stöðu sem uppi er:

Í fyrsta lagi: Er skynsamlegt að setja fjármuni í þau verkefni sem ríkisstjórnin ætlar sér að fara fram? Er hér verið að leggja til skynsamlega ráðstöfun á fé sem við eigum ekki? Þegar halli er á ríkissjóði eru það fjármunir sem við eigum ekki. Að þessu þurfum við að spyrja okkur.

Síðan þurfum við líka að spyrja okkur að því hvort sú forgangsröðun sé skynsamleg sem birtist í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. ekki í þeim breytingartillögum sem við ræðum á milli umræðna heldur upphaflegu tillögunum sem birtast okkur. Er þar eitthvað sem ekki er nauðsynlegt, svo sem verkefni, stofnanir eða eitthvað sem ríkissjóður ætlar að ráðast í? Gerum við ráð fyrir of mikilli hagræðingarkröfu á grunnstoðir samfélagsins, á menntakerfið, löggæsluna, á meðan fjármunum er varið til þátta sem ekki eru svo nauðsynlegir? Ég held að svo sé og ég ætla að koma betur inn á það á eftir.

Áður en ég tala um einstök verkefni sem er vitnað til í nefndarálitum og í tillögum meiri og minni hluta ætla ég að koma aðeins inn á byggðamálin almennt eins og þau birtast okkur í fjárlagafrumvarpinu og hafa birst okkur undanfarin ár. Við höfum horft upp á það að mörg byggðarlög víða úti á landi hafa þurft að glíma við mikla fólksfækkun. Í mörgum þessara samfélaga er vegið of hart að grunnstoðum samfélagsins. Það er mjög slæmt, sérstaklega ef við horfum til þess að á mörgum þessara svæða eru gríðarleg sóknarfæri. Ef vegið er meira að grunnstoðum þessara samfélaga en gert hefur verið, þ.e. hinni eðlilegu grunnþjónustu sem við verðum að tryggja á hverjum stað, og þá sérstaklega nú síðustu ár með niðurskurði í löggæslu, heilbrigðismálum, samgöngumálum o.s.frv., veikjum við möguleikana á því að þessi byggðarlög, sem hafa gríðarleg sóknarfæri til að afla gjaldeyris fyrir þjóðarbúið, geti gert það. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talaði um það í sinni ræðu áðan að mikilvægasta verkefnið núna væri að afla meiri gjaldeyris til að geta staðið undir þeim skuldbindingum sem þjóðarbúið ber, en með því að veikja grunnstoðir þessara samfélaga vítt og breitt um landið værum við að skerða möguleika okkar til að geta sótt fram og aflað gjaldeyris fyrir þjóðarbúið eins og svo nauðsynlegt er.

Ég lagði það til á sínum tíma þegar ég átti sæti í fjárlaganefnd að gerð yrði sérstök byggðaúttekt á fjárlagafrumvarpinu þar sem gætt yrði að því að opinber störf, niðurskurður og þjónusta og annað slíkt yrði byggðarýnt út frá því hver staða hina dreifðu byggða landsins væri. Sérstaklega væri það mikilvægt á þessum niðurskurðartímum og í ljósi þeirra sóknarfæra sem bjóðast vítt og breitt um landið í nýtingu auðlinda, í ferðamennsku og öðru slíku.

Annar minni hluti fjárlaganefndar, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, kemur inn á það í nefndaráliti sínu að mikilvægt sé að fram fari slík úttekt. Ríkisstjórnin leggur áherslu á kynjaða fjárlagagerð, að kynjajafnréttis sé gætt, en það er ekki síður mikilvægt að gætt sé að byggðajafnrétti og að málefni landsbyggðarinnar fái meiri þátt í þeirri vinnu sem unnin er í fjárlaganefnd.

Við vitum öll hvernig þetta gerist; ákveðin er niðurskurðarkrafa þvert yfir. Síðan er niðurskurður ákveðinn á einstök ráðuneyti og ráðuneytin deila honum niður á einstakar ríkisstofnanir. Síðan þegar forstöðumenn þessara ríkisstofnana fara að skera niður í stofnunum sínum hefur reynslan sýnt okkur að þá skera þessir aðilar frá sér. Við því var varað þegar farið var í niðurskurð í upphafi þessa kjörtímabils því að reynslan hefði einmitt sýnt okkur þetta. Forstöðumenn þessara ríkisstofnana eru allir staðsettir á höfuðborgarsvæðinu. Varað var við því að þeir mundu skera frá sér og að niðurstaðan mundi verða sú að í ákveðnum byggðarlögum mundi opinberum störfum fækka gríðarlega og grunnþjónustan yrði skorin niður.

Það er nú að koma á daginn. Það sjáum við til að mynda á Norðurlandi vestra þar sem opinberum störfum hefur fækkað gríðarlega á þessu kjörtímabili. Hingað og þangað eru eitt og tvö störf. Svo horfum við upp á að stofnanir sem staðsettar eru hér á höfuðborgarsvæðinu þenjast síðan út en ekki auka þær starfsemi sína á landsbyggðinni.

Við höfum séð hvernig gengið hefur verið að heilbrigðiskerfinu með niðurskurðartillögur til heilbrigðismála og þá sérstaklega í hinum dreifbýlli héruðum, á Norðurlandi vestra. Við höfum horft upp á það til að mynda á Vesturlandi þar sem búið er að skera gríðarlega niður í heilsugæslu á Snæfellsnesi, Dalasýslu, Hólmavík, Húnaþingi vestra og auðvitað þekkjum við umræðuna um lokun E-deildar sjúkrahússins á Akranesi. Þar setti ríkisvaldið fjármuni í að gera upp heila deild, heila álmu og ári síðar, á meðan verið var að ljúka við endurbæturnar, var þessari sömu deild lokað. Núna, rúmlega hálfu ári eftir að deildinni var formlega lokað, er ekki enn búið að finna úrræði handa öllum þeim einstaklingum sem nýttu sér þjónustu E-deildar sjúkrahússins á Akranesi. Ég verð að segja, svo ég komi aðeins að breytingartillögum meiri hlutans sem eru til umræðu, að það hræðir mig óneitanlega að sjá að settir séu fjármunir í að byggja upp sjúkrahúsið í Stykkishólmi í ljósi sögunnar þegar sama ríkisstjórn setti fjármuni í sjúkrahúsið á Akranesi og síðan var öll starfsemi soguð út úr sjúkrahúsinu strax ári síðar.

Þjónustan skiptir öllu máli. Ég hefði gaman af því að fá það inn í umræðuna hvað menn ætlast til t.d. varðandi Heilbrigðisstofnun Vesturlands og sérstaklega þá sjúkrahúsið á Akranesi þar sem heill gangur, sem er nýuppgerður, stendur tómur í dag. Á sama tíma ætla menn að fara í frekari framkvæmdir.

Skoðum nú umræðuna um veiðigjöldin og þær hugmyndir sem uppi voru um að veiðigjöldin ættu að renna aftur til hinna dreifðu byggða. Ef maður skoðar tillögur meiri hluta fjárlaganefndar er ekki með nokkru móti hægt að segja að verið sé að styrkja landsbyggðina þegar talað er um að veiðigjöld eigi að fjármagna ákveðnar tillögur. Í fyrsta lagi kemur veiðigjaldið langverst niður á smærri útgerðunum, en veiðigjaldið sem ákveðið var að setja á átti auðvitað að renna meira til byggðarlaganna sjálfra, til sveitarfélaganna á svæðinu. En það er hægt að gera það með ýmsum hætti, með almennum aðgerðum, það þarf ekki allt að fara í gegnum ríkissjóð. Framsóknarflokkurinn hefur bent á hugmyndir eins og tíðkast t.d. í norskri byggðastefnu gagnvart hinum dreifðu byggðum þar sem stærsti hluti veiðigjaldsins kemur úr dreifbýlinu, það kemur allt hingað suður til Reykjavíkur, það rennur í ríkissjóð og einungis lítið brot er síðan veitt aftur út til hinna dreifðu byggða. En í Noregi er almenn umgjörð utan um byggðamálin þannig að ef einstaklingar og fyrirtæki eru í hinum dreifðu byggðum og langt frá höfuðborginni er viðurkennt að þau njóti ekki sömu þjónustu og íbúar í Ósló. Þá greiða þeir einfaldlega lægra tryggingagjald og oft og tíðum lægri tekjuskatta. Ungt fólk greiðir minna af námslánum sínum. Ef veittir hefðu verið fjármunir í einhver svona verkefni væri þar um að ræða almennar aðgerðir í þágu byggðanna. En ekkert bendir til þess að það verði gert miðað við hvernig hugsunarhátturinn er, litið er á landsbyggðina og þau byggðarlög sem standa svo veikt sem einhvers konar tekjulind fyrir ríkissjóð. Þá erum við komin mjög langt frá því sem lagt var upp með á sínum tíma þegar réttlætt var að ráðast í veiðigjöldin.

Það er líka annað sem mig langar að koma inn á og snýr sérstaklega að landsbyggðinni. Það eru tillögur varðandi niðurgreiðslur á húshitun, en meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að 175 millj. kr. fari í niðurgreiðslu til húshitunar. Gott og vel, að sjálfsögðu er jákvætt að settir séu fjármunir í niðurgreiðslu húshitunar. En ef maður skoðar umræðuna um þau mál, og það er ágætt að fara aðeins yfir það hér, er staðan þannig á hinum svokölluðu köldu og dreifbýlli svæðum að menn greiða margfalt hærra verð fyrir að kynda hús sín en á þéttbýlli svæðum, m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Oft og tíðum er sagt að á þessum svæðum þurfi menn 13. launamánuðinn til að greiða húshitunina á húsinu sínu. Það þurfi einn aukamánuð í árið eingöngu til að greiða húshitun af íbúðarhúsum.

Í rökstuðningi fyrir því að setja þessar 175 millj. kr. inn til jöfnunar húshitunarkostnaðar segir meiri hlutinn að tillagan sé í samræmi við niðurstöður í skýrslu starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar frá því í desember 2011. Þar var lagt til að flutningur á dreifingu á raforku til íbúðarhúsnæðis yrði niðurgreiddur að fullu. Síðan var rakið ágætlega um hvað þær hugmyndir snerust. Tillögur starfshópsins snerust um að setja á ákveðinn skatt sem endurskoðast mundi sjálfkrafa og tryggja það að húshitun kostaði jafnmikið óháð því hvar maður byggi á landinu. Það virkaði þá svipað og flutningssjóður olíuvara, þ.e. að allar olíuvörur sem koma inn í landið eru skattlagðar og síðan er sá skattur notaður til að greiða niður flutning á olíu til hinna dreifðu byggða. Það er ástæðan fyrir því að bensínlítrinn kostar nánast það sama í 101 og á Patreksfirði, Djúpavogi eða á Höfn í Hornafirði. Tillaga þessa starfshóps gerði ráð fyrir því.

Tillaga starfshópsins gerði ekki ráð fyrir því að ríkisvaldið væri sífellt að setja smáfjármuni inn í sjóðinn og sveitarstjórnir í þessum sveitarfélögum, þ.e. á hinum köldu svæðum, þyrftu að koma árlega fyrir fjárlaganefnd með betlistaf og betla pening til að íbúar á svæðunum gætu búið við sambærilegan kyndikostnað og íbúar á öðrum svæðum. Þess vegna er alveg ótrúlegt að sjá að í tillögunum sé talað um að þetta sé einmitt gert til að bregðast við hugmyndum um jöfnun húshitunarkostnaðar.

Talað hefur verið fyrir því að koma á fót slíku kerfi. Ég var flutningsmaður þingsályktunartillögu, bæði á síðasta þingi og á þessu þingi, um að fela ríkisstjórninni, sem hefur auðvitað lögfræðingastóð í ráðuneytunum, að ráðast í aðgerðir að koma upp húshitunar- og jöfnunarkerfi þar sem tryggt yrði að fyrirkomulagið mundi vera með svipuðum hætti og varðandi bensín og olíu, þ.e. að kostnaðurinn yrði jafn um land allt.

Menn hafa borið því við að það sé flókið og erfitt o.s.frv. en á sama tíma leggja menn einmitt til svona skattlagningu á orkuna í landinu en skatturinn á bara ekki að renna til hinna dreifðu byggða. Lagt er til að fara í skattlagningu á raforku einmitt eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir, en það er orðið flókið þegar þarf að veita það áfram til hinna dreifðu byggða. Að sjálfsögðu styð ég tillögu um að setja þessa fjármuni í niðurgreiðslu húshitunar, en af hverju er ekki hægt að koma upp slíkum jöfnunarsjóði? Hvað stendur í vegi fyrir því? Af hverju þurfa sveitarstjórnir og einstaklingar að koma fyrir fjárlaganefnd ár hvert og óska eftir því að það sé gert? Af hverju getum við ekki gert það? Það vantar ekkert nema pólitískan vilja til þess að það sé gert.

Síðan er annað sem mig langar að koma inn á og snýr að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Umhverfis- og samgöngunefnd, sem hefur sveitarstjórnarmálin á sinni könnu, fékk í síðustu viku á sinn fund fulltrúa frá innanríkisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnun til að ræða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og áhrif breytinganna, niðurskurðarins á aukaframlagi jöfnunarsjóðs, sem ég ætla koma inn á á eftir, á fámennari sveitarfélög vítt og breitt um landið. Til að rifja aðeins upp forsögu þess máls lagði fjármálaráðherra til við fjárlagagerð sérstakt aukaframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Aukaframlag jöfnunarsjóðs var fjárveiting sem var sérstaklega hugsuð til að veita fjármuni út til þeirra sveitarfélaga sem glímt höfðu við mikla fólksfækkun á undanförnum árum. Þau áttu þess vegna erfitt með að standa undir lögbundinni þjónustu og þurftu sérstaka aukafjárveitingu. Þá var ákveðið með einu pennastriki af ríkisstjórninni að breyta þessu aukaframlagi þannig að tilgangur þess yrði ekki að tekjujafna í þessum sveitarfélögum heldur til að styðja við þau sveitarfélög sem þurftu að glíma við miklar skuldir eftir bankahrunið og var oft og tíðum talað um Álftanes í því samhengi.

Vissulega er mikilvægt að taka á vanda þessara sveitarfélaga en aukaframlag jöfnunarsjóðs var einungis lítill hluti af jöfnunarsjóðnum sjálfum. Hefði verið eðlilegast að tekið hefði verið jafnt af öllum jöfnunarsjóðnum til að veita til sveitarfélaga eins og Álftaness en ekki taka aukaframlagið því að 15 fámennustu sveitarfélög landsins fengu sum hver upp undir 25–30% af sínum tekjum úr aukaframlaginu. Það er einhver sú byggðafjandsamlegasta aðgerð gagnvart fámennum sveitarfélögum á landsbyggðinni sem ráðist hefur verið í mjög langan tíma. Við því var varað sérstaklega og talað var um að það mundi hafa þau áhrif að þessi sveitarfélög mundu flest eða mörg hver komast í gríðarleg vandræði á einungis einu til þremur árum. Nú eru liðin tvö ár. Á þeim fundi sem haldinn var með forsvarsmönnum sveitarfélaga, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og fulltrúum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga kom fram að 16 sveitarfélög sem eru kannski ekki í gjörgæslu en þau eru komin upp að hættumörkum og eru orðin rauðmerkt á listum eftirlitsnefndarinnar. Af þeim 16 sveitarfélögum fengu 12 stóran hluta af sínum tekjum úr aukaframlagi jöfnunarsjóðs. Það virðist því hafa verið hárrétt sem menn bentu á frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og aðrir sem töluðu um málið á sínum tíma, að þetta mundi koma verst niður á litlu sveitarfélögunum í landinu, þau yrðu komin í sömu stöðu og Álftanes á einungis einu til þremur árum.

Var það pólitískur vilji þeirra sem hér réðu ríkjum að fámennustu sveitarfélögin allt í kringum landið, sem glíma höfðu mátt við fólksfækkun undanfarin ár, sæju um að greiða niður skuldir Álftaness? Það lítur þannig út, frú forseti, og 12 af 16 sveitarfélögum sem eftirlitsnefndin er með til skoðunar eða hefur áhyggjur af eru einmitt þessi sveitarfélög. Ef aukaframlagið hefði verið þarna inni eða ef tekið hefði verið jafnt af öllum jöfnunarsjóðnum til að bjarga Álftanesi hefðu þessi sveitarfélög ekki verið á listanum og þá hefði líka verið tekið af stærri sveitarfélögum sem hefðu mátt missa slíka fjármuni.

Þau örfáu dæmi sem ég hef nefnt sýna glögglega stöðu landsbyggðarinnar og þessara fámennu sveitarfélaga vítt og breitt um landið. Þau eiga svo sannarlega sóknarfæri og möguleika til að afla gríðarlegs gjaldeyris fyrir þjóðarbúið, en nú er jafnt og þétt verið að vinna gegn þeim möguleikum. Ég hef verulegar áhyggjur af þessari þróun og ég heyri það sífellt oftar að forsvarsmenn í þessum sveitarfélögum segja að mjög erfitt sé að halda úti lögbundinni þjónustu. Ég er nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd sem hefur nýverið skoðað málið og ég held að ég sé ekki að rjúfa neinn trúnað þegar ég segi að nefndarmenn bæði minni og meiri hlutans eru sammála eftir þennan fund með sveitarfélögunum um að skoða verði stöðu þessara sveitarfélaga mjög vel við fjárlagagerðina núna. Menn hafa miklar áhyggjur af því ef staða þeirra verður ekki leiðrétt. Ég er búinn að rekja vel hvað aukaframlagið skiptir miklu máli í því sambandi. Ég kalla eftir því að fjárlaganefnd skoði sérstaklega á milli 2. og 3. umr. hvernig sé hægt að koma til móts við þessi sveitarfélög. Um er að ræða tiltölulega fámenn sveitarfélög og þetta eru ekki gríðarlega háar upphæðir í heildarsamhenginu fyrir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þetta var röng ákvörðun, það var ekki skynsamlegt að láta þessi fámennu sveitarfélög taka skellinn fyrir Álftanes. Við verðum að bregðast við og það verður að gerast fyrr en seinna.

Ég hef oft heyrt það frá fulltrúum innan stjórnsýslunnar að þessi sveitarfélög verði þá að sameinast öðrum sveitarfélögum og skapa rekstrarvænlegar einingar o.s.frv. En vandamálið í þessum sveitarfélögum er oft og tíðum að það er ekki hægt. Það er ekki landfræðilega mögulegt og það mundi ekki breyta neinu í stóru myndinni. Þessi sveitarfélög eru búin að skera alveg inn að beini og það er nánast ekkert eftir. Ég kalla eftir því að það verði skoðað sérstaklega. (Gripið fram í.)

Síðan er ekki hægt annað en að fara aðeins yfir einstakar tillögur meiri hluta fjárlaganefndar. Ég byrja á tillögum sem snúa að svokölluðum IPA-styrkjum og fjármunum. Það virðist vera að stór hluti af breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið snúi að því að auka við IPA-fjárveitingar og IPA-styrki hér og þar í hinar ýmsu stofnanir og til ýmissa verkefna. (Gripið fram í.) Fjárlagafrumvarpið var líka uppfullt af því. Það virðist vera úti um allt í fjárlagafrumvarpinu, IPA-styrkir til allra mögulegra og ómögulegra hluta. Þá hlýtur maður að spyrja sig: Hvað veldur því að núna, milli 2. og 3. umr., uppgötva menn allt í einu að það að þarf fleiri IPA-styrki og það þurfa að koma fleiri og hærri IPA-styrkir til hinna ýmsu verkefna? Hvað breyttist? Liggur einhvers staðar fyrir hvaða upphæðir Ísland er búið að fá í IPA-styrki og þá til hvaða verkefna og hvert þeir renna? Er einhvers staðar hægt að sjá það á einum stað?

Þeir fulltrúar sem við höfum rætt við í fjárlaganefnd segja að búið sé að reyna að kalla eftir því og reyna að fá upplýsingar um það en að fátt sé um svör, þessu sé dreift hér og þar og menn forðist almennt að taka um það opna umræðu. Það er mjög alvarlegt.

Þetta eru engar smáupphæðir, ef ég fer aðeins yfir það, með leyfi forseta: Gert er ráð fyrir um 100 millj. kr. í þýðingar. Síðan er fjallað um þessi mál víða í breytingartillögum. Gert er ráð fyrir því að 42 millj. kr. eigi að fara til undirbúnings á mögulegri þátttöku Íslands í byggðastefnu og uppbyggingarsjóðum ESB. (Gripið fram í: Nei.) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Aðlögun.) (Gripið fram í: Er þetta aðlögun?) (Gripið fram í: Aðlögun.) Getur einhver sagt mér í hvað þessir fjármunir eiga nákvæmlega að fara? Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið fái hækkun upp á 122 millj. kr., Hagstofan upp á 44,5 millj. kr. o.s.frv.

Það væri líka fróðlegt að fá upplýsingar um hvort fjárlaganefnd hafi skoðað það sérstaklega hversu mikla fjármuni gert er ráð fyrir að ríkissjóður Íslands verði að veita sem mótframlag á móti einstökum verkefnum, því að IPA-styrkirnir og IPA-styrktarsjóðurinn gera ráð fyrir því að það ríki sem sækir um aðild að Evrópusambandinu verði að veita fjármuni til mótvægis við þessa styrki. Talað er um að það sé á bilinu 15–25%. Hvar liggur það fyrir í breytingartillögunum og í fjárlagafrumvarpinu sjálfu hvert mótframlag Íslands er í þessum styrkjum? Ég kalla eftir því og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá formanni fjárlaganefndar. Hvar liggur það fyrir? Ég finn það ekki en ég veit að Ísland þarf að leggja fram mótframlag. Hefur fjárlaganefnd skoðað það með einhverjum hætti? Hversu hátt er mótframlag Íslands í einstökum verkefnum og hversu mörg eru verkefnin í raun og veru og hvert renna þessir fjármunir nákvæmlega? Þegar mótframlagið kemur þarna inn fara margir að velta þessu fyrir sér.

Ef við skoðum fjármunina sem renna til undirbúnings því að Ísland taki við styrkjum úr byggðasjóðum Evrópusambandsins þá er reiknað með 10 millj. kr. í mótframlag ef það eru 25%. Ef um er að ræða 15% eru það 15 millj. kr. í mótframlag. Hvar sjáum við nákvæmlega hvert mótframlag Íslands er?

Tollstjóraembættið fær 115 millj. kr. í IPA-styrki. Hvert er mótframlag tollstjórans og ríkissjóðs við þann IPA-styrk? Hér er gert ráð fyrir að þessir fjármunir séu nýttir til að endurnýja og ráðast í úrbætur á tollakerfum ríkisins. Þeir fjármunir sem tollstjóraembættið þarf að fá snúa fyrst og fremst að því að taka upp nýtt tölvukerfi sem þarf að gera ef við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Þarna er gert ráð fyrir hækkun á því upp á 115 millj. kr. og er áætlað að heildarstuðningur Evrópusambandsins sé 640 millj. kr. Hvert er mótframlag ríkissjóðs Íslands í því verkefni? Er það 10%? Það eru 64 millj. kr. Er það 20%? Það eru 128 millj. kr. Hefði þeim peningum betur verið varið til annarra verkefna, hugsanlega til að létta á skuldastöðu ríkissjóðs eða setja inn í heilbrigðiskerfið eða verjast frekari niðurskurði í menntakerfinu? Ja, það er skoðun þess sem hér stendur.

Frú forseti. Þetta sjáum við alls staðar í breytingartillögunum. Við sjáum þetta alls staðar í frumvarpi til fjárlaga og það vantar algerlega upplýsingar um hvert mótframlag ríkissjóðs er í þessu sambandi og hvort menn telji að þeim fjármunum sé vel varið á niðurskurðartímum.

Annað verkefni sem mig langar að fjalla sérstaklega um og ég velti því fyrir mér hvort sé skynsamlegt við núverandi aðstæður, er íslenska upplýsingasamfélagið, Netríkið Ísland, sem fjallað er um á bls. 38 í breytingartillögunum. Þar er gert ráð fyrir að setja 200 millj. kr. í framlag til sérstaks átaks í því skyni að efla rafræna stjórnsýslu, þjónustu og lýðræði. Þarna eru að mínu mati settir fjármunir í eitthvert verkefni sem er allt of opið, loðið og óljóst hverju það á nákvæmlega að skila. Þetta eru gríðarlega miklar fjárhæðir, 200 millj. kr. Ég velti því fyrir mér í þessu sambandi hvort það sé skynsamlegt verkefni við núverandi aðstæður. Svo er nú reyndar sagt neðanmáls að það sé eitt af þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir að verði fjármagnað með veiðigjaldi og með tekjum af arðgreiðslum og söluhagnaði af eignasölu. Ef verkefnið er fjármagnað með veiðigjaldinu, nýtist það þá hinum dreifðu byggðum sem greiða veiðigjaldið? Og með arðgreiðslum, m.a. úr fjármálafyrirtækjum? Þetta er eitt af þeim verkefnum sem ég held að sé falleg fyrirsögn en hafi mjög lítið innihald og sé rýnt í það held ég að hér sé fjármunum ekki vel varið.

Við getum haldið áfram. Maður veltir því líka fyrir sér ef maður skoðar breytingartillögurnar og miklar fjárveitingar sem áætlaðar eru til ýmiss konar menningarstarfsemi, til Listahátíðar í Reykjavík, samnings við Akureyrarbæ, Tónlistarsjóðs, starfsemi atvinnuleikhópa, Bókmenntasjóðs, Handverkssjóðs, Hönnunarsjóðs, Myndlistarsjóðs o.s.frv. Þarna er verið að setja tugi ef ekki hundruð milljóna í ýmis verkefni. Sum þessara verkefna hefðu flokkast sem safnliðir á sínum tíma. Ég velti því fyrir mér við núverandi aðstæður, þegar við horfum upp á niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, hvort þetta séu skynsamleg verkefni, hvort þetta skili sér til baka á einhvern hátt og hvort fjármununum hefði verið betur varið til annarra verkefna.

Ég talaði um málefni sem snúa að safnliðunum og þegar ég skoða tillögurnar er mjög margt þar sem ætti fremur heima í safnliðunum sem ríkisstjórnin státaði sig mjög af að hafa útrýmt úr fjárlögum. Það er efni í nokkuð langa ræðu sem ég hef því miður ekki tíma til að halda núna og það er ýmislegt sem ég átti eftir að koma inn á sem ég verð að koma betur að síðar. Það eru m.a. safnliðirnir, snjóhengjan, Náttúruminjasafn Íslands, refaveiðar, umboðsmaður skuldara, sem gert er ráð fyrir gríðarlegum fjárveitingum í, (VigH: En Íbúðalánasjóður?) og Íbúðalánasjóður og fleiri mál. Ég vil því biðja frú forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá því að ég hef á engan hátt lokið máli mínu þó að ég hafi gert það núna að þessu sinni.