141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði nú ekkert að spyrja um það sem ég notaði fyrra andsvarið mitt í heldur ætlaði ég að ræða aðeins um Evrópusambandið við hv. þingmann og verð þá að haska mér við það núna í seinna andsvari.

Nú hefur það margoft komið fram í þinginu að allt varðandi aðlögunarferlið að ESB átti að vera uppi á borðum, opið, lýðræðislegt og allir að komast að málinu. Getur hv. þingmaður lesið út úr fjárlagafrumvarpinu sem hér liggur fyrir hver sé áætlaður kostnaður ríkissjóðs af aðildaraðlögunarferlinu á árinu 2013? Hefur hv. þingmaður tekið það saman? Ætti ekki að vera aðgengilegt og einfalt að lesa það út úr frumvarpinu? Ef svo er, getur hv. þingmaður upplýst mig, sem hef ekki fundið þá tölu skýra í fjárlagafrumvarpinu, um það hver fjárhæðin er miðað við þá áætlun?

Hv. þingmaður kom aðeins inn á IPA-styrkina og hvernig þeir blandast inn í fjárlagafrumvarpið. Það er svolítið sérstakt að nú er verið, að því er mér sýnist og eins og ég skil það, að lagfæra alla skriffinnskuna í kringum það allt saman. Hefur hv. þingmaður skoðun á því hvaða áhrif eða hver tilgangur Evrópusambandsins er með að beina þeim styrkjum hingað til lands? Telur hv. þingmaður að styrkirnir séu bara veittir til að hjálpa Íslendingum með góð verkefni eða telur hv. þingmaður að Evrópusambandið hafi einhvern undirliggjandi tilgang með því að leggja okkur til það fé?