141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[04:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í þessari ræðu að fjalla um einstakt mál sem snýr að getu þjóðarbúsins til að standa skil á þeim gjaldeyri sem þarf til að greiða niður lán sem bæði ríki, sveitarfélög og fyrirtæki skulda í landinu. Mig langar að minna á það í þessu samhengi, og ég held að ég muni það alveg rétt, að sá hv. þingmaður sem fór fyrst að tala um vandamálið þegar kæmi að skiptingu þrotabúanna á gömlu bönkunum, sem stefnt var að að yrði núna um áramótin, heitir Lilja Mósesdóttir. Ég man að hún tók þetta upp fyrir margt löngu. Mér fannst að þegar hv. þingmaður vakti athygli á þessu færi kliður um salinn og menn voru kannski að draga úr því sem hún var að segja, eins og ég skildi það.

Síðan kemur auðvitað í ljós að eignir erlendra aðila nema um 3 þús. milljörðum kr. Í fyrsta lagi eru 2 þús. milljarðar í gjaldeyri sem er til inn í skiptingu gömlu þrotabúanna, annars vegar í gjaldeyri og hins vegar í eignum erlendis frá, og í öðru lagi er það hin margfræga snjóhengja eins og hún er kölluð sem er bundin í íslenskum krónum sem hafa mikinn og ákveðinn vilja til að komast úr landi.

Hvernig skyldu horfurnar vera á því að leysa þetta vandamál? Ég held að þetta sé mikið, erfitt og flókið mál til úrlausnar og ég held að það væri mjög mikilvægt að menn skipuðu þverpólitískan hóp sem héldi utan um þetta mál, hvort sem það væru formenn flokkanna eða aðrir. Ég tel þetta það alvarlegt verkefni.

Rifjum til að mynda upp hvernig skuldabréfið milli gamla og nýja Landsbankans er. Það hefur forgang á innstæður ef illa fer. Það er pósitíft ákvæði um það í skuldabréfinu, ef eitthvað gerist hefur það forgang á innstæður. Það komu upp efasemdir þegar gengið var frá skuldabréfinu og sumir töldu að þetta væri þung greiðslubyrði á erlendum gjaldeyri sem mundi streyma úr landi á skömmum tíma. Þá kom það frá fjármálaráðuneytinu að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af því, ekki nokkrar einustu, ekki neinar, þetta væri allt klárt og klippt og mundi ganga eftir miðað við þær áætlanir sem menn gáfu sér.

Síðan gerist nokkuð undarlegt, það kemur fram í fréttum að seðlabankastjóri og Seðlabankinn telji að greiðslan af skuldabréfinu geti ógnað fjármálastöðugleika landsins, hvorki meira né minna. Það er auðvitað engin ástæða til að ræða athugasemdir stjórnarandstöðunnar í þeirri umræðu. Þegar vakin var athygli á þessu vandamáli sem væri hugsanlega í uppsiglingu var bara slegið á létta strengi, gert lítið úr því og það talað niður. En hvernig skyldi þetta birtast þinginu? Það kemur bara fram í fréttum að þetta sé verkefni sem fram undan er en Seðlabankinn muni að sjálfsögðu leysa þetta og sjá um þetta ef hann fær bara til þess nægilega mikil völd og heimildir. En það var ekki ástæða til að kynna þetta fyrir hv. fjárlaganefnd á sínum tíma. Nei, það var auðvitað algert aukaatriði. Hv. fjárlaganefnd heyrði þetta bara í fréttum.

Þá spyr maður sig að því hver sé í raun heildaryfirsýnin yfir fjármál ríkisins. Ef við setjum þetta í samhengi við þá 3 þús. milljarða sem ég nefndi — eða við skulum kannski ekki ræða frekar þá 1.200 milljarða sem vilja komast úr landi því fyrir hinu er til gjaldeyrir. Ég nefndi hv. þm. Lilju Mósesdóttur en hún kom með þá tillögu að setja mjög háan skatt á útgreiðslu á þessum gjaldeyri til að ná niður snjóhengjunni því að geta þjóðarbúsins til að framleiða gjaldeyri til að standa skil á öllum þessum skuldbindingum sem sneru að gjaldeyrisjöfnuði landsins væri allt of lítil. En það var ekkert gert með það.

Þá skulum við setja þetta í samhengi við horfurnar og hvernig við getum aukið framleiðslu á gjaldeyrinum. Hver eru sóknarfærin þar? Þau eru ugglaust mörg en ástandið á erlendum mörkuðum, t.d. í Evrópu þar sem eru okkar helstu viðskiptalönd í sjávarútvegi, er þannig að það eru kannski ekki svo bjartir tímar fram undan og ekkert víst að það breytist á einu, tveimur árum. Eru meiri sóknarfæri í því að fara í frekari uppbyggingu stóriðju? Jú, klárlega. En verið að nýta þau eða byggja undir þau til að geta skapað meiri tekjur? Nei, þvert á móti.

Eigum við að tala næst um ferðaþjónustuna, vaxtarbroddinn sem á að hjálpa okkur mikið? Jú, það eru möguleikar þar. En það merkilega er að stjórnvöld, ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn, eru í stríði við allar þessar atvinnugreinar, hverja einustu. Fjórar atlögur hafa verið gerðar að sjávarútveginum, og við þekkjum umræðuna um stóriðjuna og svik við þá samninga sem voru gerðir í árslok 2010 þegar samið var um að fá 3,6 milljarða í fyrir fram greiddum sköttum á árinu 2010, 2011, 2012. Þá átti auðvitað að byrja að greiða til baka þegar ríkisstjórnin hætti á árinu 2013. Það liggur fyrir gagn í fjárlaganefnd og minnst er á það í nefndaráliti okkar í 1. minni hluta að eitt fyrirtækið er að hugsa um að leita réttar síns til að ná þessu til baka vegna svika hæstv. ríkisstjórnar að þeirra mati. Þannig er umhverfið.

Er hugsanlegt að margir vilji fjárfesta? Já, það held ég, en hvernig hefur hæstv. ríkisstjórn komið fram við þá sem hugsanlega eru tilbúnir til þess? Ég held oft og tíðum að forsvarsmenn hæstv. ríkisstjórnar skilji ekki uppbyggingu atvinnulífsins og hversu mikilvægt atvinnulífið er, miðað við hvernig ríkisstjórnin hagar sér gagnvart atvinnulífinu.

Skýrasta dæmið um þetta er kannski þegar hér urðu miklar pólitískar deilur í tengslum við fyrirtækið Magma Energy, burt séð frá því hvaða skoðun menn hafa á því, og menn fóru að klóra yfir það, eins og Vinstri grænir gera eftir á. Niðurstaða nefndar sem hafði stjórnskipulega stöðu var sú að eðlilega hefði verið staðið að málum. Þá varð uppi fótur og fit og sumir hv. þingmanna Vinstri grænna gerðu alvarlegar athugasemdir. Þá var skipaður hópur sem enginn vissi hvaða stöðu hafði og hafði enga stjórnskipulega stöðu til að fara yfir málið. Hver voru svo viðbrögð hæstv. forsætisráðherra á tröppum Stjórnarráðsins þegar kom í ljós að þetta hafði gengið eðlilega fram? Hæstv. forsætisráðherra var með lausnirnar eins og fyrri daginn. Það kæmi auðvitað alvarlega til greina að þjóðnýta fyrirtækið. Bara þjóðnýta það. Það voru skilaboðin til erlendra fjárfesta.

Ég gleymi aldrei því símtali sem ég fékk í framhaldi af því frá manni sem starfar erlendis sem spurði mig: Gerið þið ykkur grein fyrir því heima á Íslandi hvaða afleiðingar svona yfirlýsingar frá hæstv. forsætisráðherra hafa? Jú, ég þóttist hafa grun um það. En eftir að hafa hlustað á reiðilestur hans um framkomu íslenskra stjórnvalda verð ég að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég var eiginlega í hálfgerðu sjokki. Þannig fer hæstv. ríkisstjórn með möguleikana til að byggja upp atvinnulífið, skapa meiri tekjur og hagsæld fyrir fólkið í landinu. Það hefur stundum verið sagt að eftirmælin um þessa ríkisstjórn sem vísar í norræna velferð verði væntanlega þau að fólkið fer úr landi með búslóðirnar með Norrænu.