141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[05:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að fjalla örlítið um menntamálin og vísindamálin en ég ætla að bíða aðeins með þau og geymi þau þar til ég fer í næstu ræðu.

Ég var að fletta yfir tillögur sem tengjast nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Eins og ég gat um í síðustu ræðu minni eru þær tillögur sem við ræðum um, breytingarnar á milli 1. og 2. umr., náttúrlega fyrst og fremst tillögur ríkisstjórnarinnar. Við vitum það alveg og þess vegna höfum við verið að kalla eftir viðhorfum og sjónarmiðum hæstv. ráðherra. Gott og vel, en þegar maður reynir síðan að rýna inn á milli þá velti ég fyrir mér: Hvar eru tillögur þingsins? Hvar eru tillögur þingsins, forsætisnefndar, varðandi fjárlagaumræðuna?

Ég vil minna á að hér hefur ekki sjaldan verið rætt um og bent á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, rætt um þá vinnu sem átti sér stað innan þingsins, og menn hafa talað um 63:0, um það hvernig eigi að koma málum í farveg. En ekki síst hefur umræðan innan þingsins verið sú að efla eigi Alþingi en ekki veikja það á kostnað framkvæmdarvaldsins.

Ég hefði haldið að meiri hluti fjárlaganefndar færi að sýna þeim sjónarmiðum ákveðinn skilning og ákveðna virðingu og mundi strax eftir 1. umr. draga fram tillögur þingsins, draga fram mikilvægi þeirra til að efla sjálfstæði þingsins. Það er gríðarlega mikilvægt að tekið sé tillit til þeirra tillagna sem Alþingi leggur fram með forseta Alþingis í broddi fylkingar. Ég er ekki að tala um að taka eigi tillit til allra tillagna en að um þær skuli fjalla. Ég veit að þeim tillögum sem komu frá forsætisnefnd hefur verið frestað til 3. umr. Er það smart? Er það smart að láta Alþingi bíða, að láta tillögur Alþingis bíða, löggjafarsamkomunnar, en skófla síðan öllu inn sem hæstv. ríkisstjórn vill koma inn. Um að gera að forgangsraða í þágu ríkisstjórnarinnar en ekki í þágu löggjafarsamkomunnar.

Mér finnst þetta merkileg forgangsröðun og vil einfaldlega vekja athygli á því. Og þegar við sjáum þær tillögur frá forsætisnefnd Alþingis, sem tekin hefur verið ákvörðun um að fresta til 3. umr., þá eru það náttúrlega svolítið forvitnilegar tillögur sem hv. fjárlaganefnd ætlar síðan að fjalla um. Þess vegna hefði nú verið forvitnilegt að fá að heyra sjónarmið hv. formanns fjárlaganefndar um hvaða sjónarmið búa að baki því að fresta þessu til 3. umr. og hvaða viðhorf hann hefur gagnvart tillögum þingsins því að tvær lykilstofnanir þingsins, þ.e. umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi, eru einmitt til þess að styðja og efla sjálfstæði þingsins, ekki síst gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það getur vel verið að menn segi: Það kemur vel á vondan að maður skuli beina þessu til hv. formanns fjárlaganefndar því að það er nú ekki þannig að menn hafi beinlínis verið að styrkja til dæmis Ríkisendurskoðun, sem er ein helsta stofnun til stuðnings Alþingis, með ummælum sínum.

Það hefur beinlínis verið talað niður til Ríkisendurskoðunar. Menn hafa verið ósáttir við ákveðna málsmeðferð og hafa reynt að draga mjög úr trúverðugleika Ríkisendurskoðunar sem að mínu mati er afar alvarlegt, grafalvarlegt, að menn hafi verið að gera það. Það er bara þannig. Þegar maður sér núna ýmsar tillögur frá forsætisnefnd, eins og ég gat um áðan, hugsanlega einhverjar sem á ekki endilega að taka tillit til — ég vil sérstaklega vekja athygli á þessum tveimur sjálfstæðu stofnunum, undirstofnunum Alþingis, þ.e. umboðsmanni Alþingis og Ríkisendurskoðun — er vert að hafa í huga í því samhengi að það hljóta að koma upp spurningar um þær tillögur forsætisnefndar Alþingis gagnvart Ríkisendurskoðun og umboðsmanni Alþingis, sem hafa verið frekar ósparar á gagnrýni gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hvernig viðbrögð munu þær undirstofnanir þingsins fá hjá hv. fjárlaganefnd og þá sérstaklega meiri hluta fjárlaganefndar sem ræður þar öllu innan nefndarinnar?

Ef við rifjum upp söguna sem var fyrr á þessu hausti þá er alveg ljóst að Sveinn Arason ríkisendurskoðandi hefur oftar en einu sinni gagnrýnt ráðherra, ekki síst Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs fyrir ýmis verk sín. Í einu tilvikinu kallaði hann aðgerðir ráðherraflokksins algjörlega ólíðandi og í öðru tilviki sakaði ríkisendurskoðandi annan ráðherra um vinnubrögð sem væru nú aldeilis ekki til fyrirmyndar eða til þess fallin að auka tiltrú almennings á stjórnsýslunni. Við vitum og þekkjum gagnrýni hv. þm. Björns Vals Gíslasonar á Ríkisendurskoðun og ég vil gagnrýna þá gagnrýni Björns Vals því að ég held að hann hafi gengið allt of langt í aðhaldi sínu gagnvart ríkisendurskoðanda, eiginlega [Hlátur í þingsal.] bara alveg með ólíkindum. — Ég ætti kannski að spyrja hæstv. forseta hvort hann vilji ekki gera hlé á þingfundi meðan hann nær sér af hlátursköstunum. Það er mjög alvarlegt ef hæstv. forseti ætlar ekki að taka undir það með okkur í þinginu að styrkja og efla þurfi Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis enn frekar frá því sem nú er, ekki síst þegar þessi ómálefnalega gagnrýni kemur af hálfu, sérstaklega þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og …

(Forseti (ÁÞS): Forseti telur að ræðumaður ætti að líta á það sem hól ef forseta er skemmt.)

Það er gott að hæstv. forseti hafi húmor, dagur er að hefjast og það er gott að menn fari glaðir og bjartir inn í daginn og með húmorinn í lagi. En það verður samt að segjast eins og er að ég lít það mjög alvarlegum augum hvernig aðkoma þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var í þeirri aðför. Og það var ekki um annað að ræða en aðför gagnvart ríkisendurskoðanda. Það er ágætt að hafa húmor fyrir ákveðnum hlutum en við megum samt ekki gleyma því sem málið allt snýst um.

Við skulum draga það fram að Ríkisendurskoðun er eftirlitsstofnun sem heyrir undir Alþingi og má örugglega telja hana eina mikilvægustu undirstofnun okkar. Alþingi leitar reglulega til ríkisendurskoðanda eftir áliti í sambandi við gerð fjárlaga en stofnunin er einnig í því hlutverki að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og þá ekki síst því sem ráðuneytin og ráðherrarnir eru að gera alla jafna. Á síðustu árum hefur Ríkisendurskoðun oftar en einu sinni, eins og ég gat um áðan, gert mjög alvarlegar athugasemdir við framgöngu ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þeir kunna henni ekki alltaf miklar þakkir fyrir.

Haustið 2009 samþykkti ríkisstjórnin áætlun um byggingu hjúkrunarheimila með samtals 361 hjúkrunarrými í níu sveitarfélögum á árunum 2010–2013. Þá var áætlaður kostnaður við framkvæmdir um 9 milljarðar kr. Áformað var að fara í það verkefni með þeim hætti að viðkomandi sveitarfélög önnuðust hönnun og byggingu heimilanna í samræmi við viðmið velferðarráðuneytisins en að Íbúðalánasjóður lánaði síðan til framkvæmdanna. Framkvæmdasjóði aldraðra og einnig velferðarráðuneytinu var síðan ætlað að greiða húsaleigu næstu 40 ár til viðkomandi sveitarfélaga og reiknaðist hún sem ígildi stofnkostnaðar. Ef fara ætti í þessa framkvæmd eins og menn ætluðu sér af hálfu ríkisstjórnarinnar hefði skuldbindingin aldrei komið fram í ríkisreikningi.

Þessi leið hefur stundum verið kölluð — ég vona að það sé ekki fyndið í augum hæstv. forseta — gríska leiðin, en hún gengur einmitt út á að skuldbinda ríkissjóðs án þess að skuldirnar komi fram í bókhaldi ríkissjóðs með beinum hætti. Ríkisendurskoðandi gerði einmitt grafalvarlegar athugasemdir við þá aðferð og taldi að eignfæra ætti í efnahagsreikningi ríkisins bæði þá fjármuni sem ríkið kaupir og leigir. Ríkisendurskoðandi taldi að líta bæri á leigusamning sjóðsins við sveitarfélögin sem fjármögnunarleigusamning milli ríkisins og þeirra.

Það er líka hægt að rifja upp Árbótarmálið þar sem Steingrímur var heldur betur skammaður fyrir að (Forseti hringir.) — hæstv. ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon.

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir þingmenn á að ávarpa þingmenn og ráðherra fullu nafni.)

Algjörlega, en ég held líka að hæstv. forseti verði þá að hlusta á alla setninguna. (Gripið fram í: Akkúrat.) Akkúrat. Þó að ákveðin mál geti verið óþægileg fyrir ráðherra þá fer maður ekki í það að gagnrýna og skjóta sendiboðann, þekkjandi það mál mætavel. Það er nákvæmlega þannig sem á ekki að bregðast við, að skjóta meðal annars niður trúverðugleika og áreiðanleika ríkisendurskoðanda.

Ég mun halda áfram að fjalla um nákvæmlega þetta mál, Árbótarmálið, sem og önnur mál sem þingmenn og ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa fengið orð í eyra frá ríkisendurskoðanda. Þess vegna verður forvitnilegt að sjá hvernig meiri hluti fjárlaganefndar mun taka í (Forseti hringir.) umsögn og beiðni ríkisendurskoðanda. Það verður forvitnilegt að sjá.